Segir misþyrmingu hestanna óskiljanlega

Guðni Halldórsson, formaður Landssambands hestamannafélaga, segir óbragð sitja eftir í …
Guðni Halldórsson, formaður Landssambands hestamannafélaga, segir óbragð sitja eftir í munni.

Guðni Halldórsson, formaður Landssambands hestamannafélaga, segir óskiljanlegt hverju erlendir hestaþjálfarar hafi verið að reyna að ná fram við þjálfun fyrir kvikmyndaverkefni hér á landi.

Hann segir óbragð sitja eftir í munni, vitandi að þjálfararnir haldi sinni iðju áfram erlendis. Mennirnir voru ráðnir til þess að þjálfa hesta fyrir kvikmyndaverkefni hér á landi.

Guðni deildi myndbandi á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi sem sýnir illa meðferð á hestunum. Tekið skal fram að það er ekki fyrir viðkvæma.

„Ég fékk hringingu um hádegisbilið í gær frá aðila sem hafði einhverjar spurnir af þessu,“ segir hann í samtali við mbl.is. Í kjölfarið hafi hann látið MAST vita af málinu og krafist aðgerða, sem úr varð en þjálfunin hefur nú verið stöðvuð tímabundið. 

Seljandi hringdi miður sín

Guðni kveðst ekki vera viss um það hvenær verkefnið hófst eða hversu lengi meðferðin hafi staðið yfir, en telur að það hafi verið nokkrir dagar. 

Þá segir hann að þau hafi keypt einhverja hesta og fengið aðra lánaða, en að hann viti ekki hlutfallið á því. 

Þannig að þau keyptu einhvern fjölda hesta?

„Mér skilst það, en það er bara orðið á götunni, ég hef svo sem ekki frekari fregnir en aðrir,“ segir hann og bætir við að einstaklingur sem seldi hest til kvikmyndaverkefnisins hafi haft samband við sig. 

„Það hafði allavega aðili sem seldi annan hestinn sem sést á myndbandinu samband við mig alveg miður sín.“

Situr eftir óbragð í munni

Veistu hvar hestarnir eru niðurkomnir?

„Ég býst við því að þeir séu í einhverju hesthúsi og að það sé hugsað um þá,“ segir Guðni og bendir á að búið sé að segja upp hestaþjálfurunum.

„Það situr eftir óbragð í munninum á manni að þetta fólk á að vera með áratugareynslu í þessu og heldur væntanlega áfram við þá iðju einhvers staðar annars staðar. Við bregðumst hratt við hér á Íslandi og eftirlitsstofnanir bregðast fljótt við og þeir Íslendingar sem komu að verkefninu, en þá er ekki þar með sagt að hestar annars staðar í heiminum búi við þann munað.“

„Það skilur enginn hvað viðkomandi er að gera eða hverju hann er að reyna að ná fram, enginn sem ég hef talað við. Enginn hefur séð nokkuð þessu líkt áður. Það er alveg óskiljanlegt hvað maðurinn er að reyna að gera.“

Uppfært klukkan 17.47

Búið er að fjarlægja myndbandið sem um ræðir af Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert