Nóg var um að vera hjá björgunarsveitum landsins í gærkvöldi og fram á nótt að sögn Jón Þórs Víglundssonar upplýsingafulltrúa Landsbjargar.
Þrjú útköll bárust frá Snæfellsnesi og í verkefnaskrá Landsbjargar var talað um skafl úr Skagafirði sem birtist grandlausum ökumanni á brúnni yfir Laxá.
„Snjórinn hefur væntanlega fokið úr Skagafirðinum á brúnna yfir Laxá og truflað heiðvirðan Húnvetning á ferð sinni,“ segir Jón Þór í samtali við mbl.is.
Fjöldi útkalla bárust björgunarsveitum víðs vegar um landið. Meðal annars var óttast um einn úr hópi ferðamanna hjá Djúpalónssandi á Snæfellsnesi, en viðkomandi skilaði sér tíu mínútum eftir útkall björgunarsveita og var það því afturkallað.
Einnig barst útkall vegna tveggja bíla sem sátu fastir á Fróðárheiði um miðnætti. Þegar björgunarsveitarmenn komu á vettvang var búið að losa annan bílinn, en farþegum í hinum bílnum var fylgt til Ólafsvíkur.
Seint í nótt um klukkan hálf fimm barst útkall frá Sauðárkróki þegar ferðamenn skiluðu sér ekki. Björgunarsveitarmenn komu að tveimur föstum bílum á Laxárdalsheiði. Lélegt símasamband var á heiðinni og gátu ferðamennirnir því ekki óskað eftir aðstoð sjálfir.
Útkall barst einnig frá Vík vegna pars sem rataði ekki til baka eftir að hafa gengið niður að flugvélaflakinu á Sólheimasandi.