Þjálfararnir reknir eftir sjö daga í starfi

Baltasar segir að það hafi verið mikið „sjokk“ að sjá …
Baltasar segir að það hafi verið mikið „sjokk“ að sjá myndbandið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Baltasar Kormákur kvikmyndagerðarmaður segir að brugðist hafi verið við um leið og myndbandið af misþyrmingu hestanna barst til þeirra frá Guðna Halldórssyni, formanni Landssambands hestamannafélaga. Hestaþjálfararnir voru reknir áður en MAST gaf út skipun um að stöðva tímabundið þjálfun hestanna, en þeir höfðu unnið með hestunum í sjö daga. 

Hestarnir voru í þjálfun fyrir þáttaröðina King and Conqueror sem Baltasar framleiðir fyrir BBC og CBS.

Unnu með hestunum í sjö daga

Baltasar segir þjálfarana hafa unnið að þjálfun hestanna í sjö daga áður en myndbandið sem vakti athygli á misþyrmingu þeirra fór í dreifingu.

„Þetta er fólk sem kemur með bestu meðmæli og hefur verið með verkefni eins og Gladiator og Game of Thrones og það stendur í ferilskránni þeirra. Þetta eiga að vera sérfræðingar í því sem þeir eru að gera,“ segir Baltasar.

Barst eitthvað til eyrna

Þá segir hann að það hafi staðið skýrt í samningum þeirra að þjálfararnir ættu að vinna samkvæmt reglugerðum landsins sem þeirra starfa í, þar á meðal þeirra sem varða meðferð á dýrum.

„Okkur barst eitthvað til eyrna að þarna væri ekki allt eins og það ætti að vera og við töluðum alvarlega við þá um það.“

Baltasar segir að í kjölfarið hafi þjálfararnir þvertekið fyrir að eitthvað væri miður í þjálfuninni og að það sem Baltasar hefði borist til eyrna hefði hvorki verið satt né rétt.

Hann segir að á þeim tímapunkti hafi dýralæknir verið sendur á svæðið. Hann hafi gefið frá sér jákvæða skýrslu um heilsu hestanna en kvað á um að hvíla þá í nokkra daga til öryggis. Þetta gerist nokkrum dögum áður en myndbandið fer í dreifingu.

Þjálfararnir fylgdu aftur á móti ekki fyrirmælum dýrlæknisins.

„Þau fóru ekki eftir neinum fyrirmælum, hvorki frá okkur né dýralækninum,“ segir Baltasar.

Ráku þá áður en MAST stöðvaði þjálfunina

Þá segir hann að eftir að fólk hafi séð myndbandið hafi öllum verið ljóst að þessi meðferð á hestunum væri ekki boðleg.

„Það var mikið sjokk að sjá þetta,“ segir hann en hann hafi séð myndbandið á milli klukkan fjögur eða fimm í eftirmiðdaginn í gær.

Baltasar segir að eftir að hafa séð myndbandið hafi þjálfurunum, sjö manns, verið vikið úr starfi.

Rákuð þið þá áður en MAST hafði samband við ykkur?

„Ég vissi ekki af því. MAST fór á staðinn í gær en þá var ekkert búið að koma út úr þeirri skoðun,“ segir hann og að eftir að myndbandið hafi farið í dreifingu hafi MAST gefið út skipan að stöðva tímabundið þjálfun hestanna.

„Um klukkan níu um kvöldið fáum við bréf frá þeim en þá vorum við búin að reka þetta fólk,“ segir Baltasar og segir að ekki sé verið að bregðast við umfjölluninni heldur verknaðinum.

Hann segir að samkvæmt dýralækni líti út fyrir að hestarnir hafi ekki hlotið varanlegan skaða og að dýrlæknar skoði dýrin reglulega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert