Tvö útköll vegna veggjalúsa í hverri viku

Útköll hafa marfaldast vegna veggjalúsa á skömmum tíma.
Útköll hafa marfaldast vegna veggjalúsa á skömmum tíma. Samsett mynd

Útköll vegna veggjalúsa hafa farið úr því að vera um sjö á ári í að vera um tvö á viku á undanförnum tveimur árum hjá Meindýraeyði Íslands. Mest verður vart við óværuna í sumarbústöðum, á gististöðum og hótelum að sögn eiganda fyrirtækisins. 

Ferðamenn eru þeir sem helst bera með sér veggjalýs en einnig er algengt að Íslendingar á faraldsfæti beri lúsina með sér heim. 

„Aðal dreifingastaðurinn er þar sem fólk er að gista,“ segir Steinar Smári Guðgeirsson eigandi fyrirtækisins. 

„Við verðum mest vör við þetta á gistiheimilum, hótelum og í sumarbústöðum en svo fer fólk náttúrlega með þetta heim,“ segir Steinar. 

Steinar Smári Guðgeirsson
Steinar Smári Guðgeirsson

Hann segir veggjalúsina komna um allt land og ekki eingöngu bundna við staði þar sem ferðamannastraumur er mestur. „Þetta er ekkert bara á höfuðborgarsvæðinu eða á Suðurlandi. Þetta er um allt land,“ segir Steinar. 

Þurrkarinn betri en þvottavélin 

Kristján Utley, starfsmaður fyrirtækisins segir auðveldara að eiga við veggjalúsina í steyptum húsum. Í timburhúsum er erfitt að losna við hana nema með því að rífa mest allt úr því rými sem þær hafa komið sér fyrir í. 

„Fyrir tveimur árum vorum við að fara í sjö útköll á ári. En við höfum verið að fá tvö útköll á viku vegna þessa undanfarið,“ segir Kristján. 

Bæði eru útköllin tengd erlendum ferðamönnum sem og Íslendingum á faraldsfæti. Hann segir það misskilning að nóg sé að setja föt í þvottavél. „Þvottavélin drepur kannski 90% af þessu en ef þú vilt drepa þetta allt þá er best að setja föt í þurrkara,“ segir Kristján.   

Kristján Utley
Kristján Utley

Panelklæðning erfið við að eiga 

Kristján bendi á að panelklæðning sé algeng á heimilum fólks. Hún sé erfið við að eiga. Kristján segir fyrirtækið ekki lofa því að vel til takist í slíkum aðstæðum sem og í timburhúsum.  

„Við höfum þjónustað einn í hálft ár. Við erum búin að mæta til hans reglulega því hann tímir ekki að rífa úr húsinu. Kostnaðurinn er auðveldlega kominn í milljón krónur. Það er panellagt rými og við erum í heilan dag í stöðugum aðgerðum þegar við erum þar,“ segir Kristján.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert