Bjóða út áætlunarflug til þriggja ára

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.
Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, segir það ekki ætlun ríkisins að halda úti áætlunarflugi frá Reykjavík til Húsavíkur og Vestmannaeyja þegar aðrar samgöngur eru í lagi. Nú sé litið til þess að bjóða út áætlunarflug til lengri tíma eða þriggja ára.

Þá segir hún að vonast sé eftir því að einhver sjái tækifæri í því að halda úti áætlunarflugi út frá markaðsforsendum þegar fer að vora.

Líkt og greint var frá í morgun verða samningar Vegagerðarinnar við Mýflug/Flugfélagið Erni um flug frá Reykjavík til Húsavíkur og Vestmannaeyja ekki framlengdir.

Vilja tryggja flug yfir erfiðustu mánuðina

„Báðar þessar leiðir eru hugsaðar þannig frá hendi ríkisins að það er verið að fljúga yfir erfiðustu vetrarmánuðina, þegar aðrar samgöngu eru líklegar til þess að vera með hnökrum,“ segir Bergþóra og nefnir desember, janúar og febrúar sem dæmi.

Hún bendir á að búið sé að bjóða út báðar leiðirnar til næstu þriggja ára, en fram að þessu hafa verið gerðir skammtímasamningar.

Í því samhengi megi nefna samning Vegagerðarinnar við Mýflug í febrúar á þessu ári um áætlunarflug til Vestmannaeyja og Húsavíkur út marsmánuð.

„Þá var ákveðið að bjóða þetta út og að það sé alveg öruggt að það verði flug yfir þessa erfiðustu mánuði.“

Vona að einhver sjái sér leik á borði

Flugfélögin Mýflug og Ernir sögðu það dapurlegt að skortur á fjármagni kæmi í veg fyrir áframhaldandi áætlunarflug til Húsavíkur og Vestmannaeyja.

„Það er ekki meiningin að ríkið fljúgi á þessa staði þegar aðrar samgöngu eru í lagi,“ segir Bergþóra.

Þá segir hún að vonast sé eftir því að með því að bjóða út samninga til þriggja ára sjái einhver sér leik á borði og haldi úti áætlunarflugi út frá markaðsforsendum hina mánuðina.

„Það verður bara að koma í ljós,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert