Erfitt að leiðrétta stærstu miðla heims

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir það erfitt að …
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir það erfitt að leiðrétta fréttaflutning stærstu miðla heims. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir útlit fyrir að spá um fjölgun ferðamanna á þessu ári muni ekki raungerast.

Útlit er fyrir fækkun gistinótta og hver ferðamaður virðist eyða minni verðmætum hér á landi en áður. Aftur á móti eru Íslendingar duglegir að ferðast erlendis og innanlands um páskana.

Horfa upp á fækkun gistinótta

„Almennt séð hefur sú aukning sem búið var að spá fyrir fyrr árinu ekki verið að raungerast,“ segir Jóhannes í samtali við mbl.is. Hann segir ýmsar ástæður fyrir því, eins og jarðhræringar, verðlagsþróun og minni markaðssetning en samkeppnislöndin.

„Við erum að horfa upp á fækkun gistinótta og sjáum blikur á lofti varðandi bókanir inn í árið. Við sjáum líka að hver ferðamaður er að eyða minni verðmætum hér á landi heldur en verið hefur.“

Góðærið eftir heimsfaraldur á enda

Jóhannes segir að tímabilið eftir heimsfaraldurinn, þegar fólk fór að ferðast að nýju og eyða því fjármagni sem það hafði safnað sér í gegnum faraldurinn með því að lengja jafnvel ferðir sínar, sé liðið undir lok.

„Það tímabil er búið,“ segir hann og bætir við að í kjölfarið fækki gistinóttum, fólk verji skemmri tíma á áfangastöðum og eyði minni peningum.

Það hangi svo saman við hærra verðlag hér á landi og möguleika á jafndýrum eða ódýrari áfangastöðum.

Gengið ágætlega að samræma upplýsingagjöf

Jóhannes sagði í viðtali við mbl.is í lok síðasta árs að tilvonandi ferðamenn til landsins væru sumir hverjir farnir að afbóka ferðir sínar til Íslands vegna jarðhræringa á Reykjanesskaganum. Þar sagði hann ýktan erlendan fréttaflutning geta útskýrt hluta af þessu.

Hvernig hefur gengið að leiðrétta erlendan fréttaflutning?

„Það er auðvitað mjög erfitt að leiðrétta fréttaflutning stærstu miðla heims. Það er erfitt að hringja í CNN og biðja þá um að breyta fyrirsögninni,“ segir hann og heldur áfram:

„Það hefur gengið ágætlega að samræma upplýsingagjöf og að koma upplýsingum til fréttamannahópa sem hafa verið hér á landi til dæmis. Það er hins vegar þannig að þessir miðlar margir hverjir eru ekkert sérstaklega ginnkeyptir fyrir því að vitna til þess sem er réttast og best að okkar mati.“

Ferðamenn voru sumir farnir að afbóka ferðir sínar vegna jarðhræringa …
Ferðamenn voru sumir farnir að afbóka ferðir sínar vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga. mbl.is/Árni Sæberg

Íslendingar duglegir að ferðast

„Almennt séð hafa Íslendingar verið mjög duglegir að ferðast erlendis. Páskarnir eru hins vegar sérstakt tímabil í íslenskri ferðaþjónustu og ferðaþjónustu almennt,“ segir Jóhannes og vísar til þess að langtímabílastæði við Keflavíkurflugvöll eru uppbókuð fram yfir páska.

„Þetta hefur verið mjög hátt hlutfall þjóðarinnar sem hefur farið erlendis undanfarin tvo ár,“ bendir hann á og segir Íslendinga einnig mjög duglega að ferða innanlands um páskana.

Hann segir að páskarnir og apríl séu aftur á móti almennt það sem ferðaþjónustan talar um sem „low season“ hvað varðar komur erlendra ferðamanna til landsins.

„Lægsti mánuðurinn er yfirleitt apríl.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert