Fráskildir feður þurfa stuðning

Ráðgjafinn Davíð Alexander Östergaard er með lausnir fyrir fráskilda feður.
Ráðgjafinn Davíð Alexander Östergaard er með lausnir fyrir fráskilda feður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Að skilja er flestum áfall sem oft tekur tíma að vinna úr. Þegar börn eru í spilinu flækjast málin oft enn frekar. Margir finna til sorgar að geta ekki búið með börnum sínum alla daga og tómleikatilfinnig heltekur gjarnan fólk. Davíð Alexander Östergaard hefur kafað djúpt í málið en hann er með háskólapróf í uppeldis- og menntunarmálum og er kominn langt með meistaraverkefni sitt í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf, en auk þess hefur hann unnið víða á sviði félagsþjónustunnar. Nú hefur hann opnað ráðgjafarstofu hjá Tengslasetrinu og hyggst einblína á fráskilda feður.

Týnast eftir skilnað

„Nú er ég að taka stökkið í að vinna sjálfstætt, eftir minni hugsjón,“ segir Davíð, sem hefur nú gengið til liðs við Tengslasetrið þar sem hann notast hvað helst við samtals- og ígrundunaraðferðir þar sem samspil tilfinninga, lífsstíls, gildismats og praktískra atriða er í forgrunni. 

„Ég er að teikna mína þjónustu upp, og þar sem ég er karlmaður, og ekki eru margir þeirra í þessum fræðum, er ég að einblína á feður eftir skilnað. Ég er byrjaður og hef sett upp bókunarþjónustu á Noona þar sem fólk getur pantað tíma. Hugmynd mín er fyrst og fremst að tala við feður, en það vill gjarnan vera þannig að við týnumst svolítið eftir skilnað og það tekur tíma að fóta sig. Körlum finnst gott að tala við einhvern sem skilur þá, en hugmyndin er líka að búa til tengslanet.“ 

Fjórir í Pabbakórnum

Til þess að efla fráskilda feður og styrkja böndin á milli þeirra hefur Davíð stofnað nokkra klúbba.

„Við erum orðnir fjórir í Pabbakórnum og svo er Pabbapíla og gönguhópurinn Garpur. Ég vil sjá þessa hópa vaxa. Svo verður boðið upp á pabbahringi og tjáningarhringi,“ segir Davíð og segir að fyrir fráskilinn föður sem vill leita sér hjálpar sé mikill ávinningur fólginn í því að sækja ráðgjöf.

„Ráðgjöfin er eins konar „speglunarspjall“ og fyrsti tíminn er án endurgjalds svo viðkomandi geti mátað sig hjá mér,“ segir Davíð og segist einnig bjóða upp á ráðgjöf þar sem rætt er um praktísku málin.

„Ég býð líka upp á skilnaðarráðgjöf. Þá geta báðir foreldrarnir mætt og ég get til dæmis aðstoðað með samkomulag varðandi fjárskiptasamning, búsetufyrirkomulag og umgengni. Oft er hægt að fyrirbyggja mikinn kostnað og óþarfa streitu ef rétta sáttarsamtalið á sér stað í hlutlausu umhverfi.“

Námskeið og karlahringir

Hjá Davíð í Tengslasetrinu er einnig fyrirhugað að halda ýmis námskeið, meðal annars um mikilvægi feðra í uppeldi og hvað það þýði að vera faðir.

„Einnig verður fræðsla fyrir verðandi feður og fræðsla um félags- og tilfinningahæfni í uppeldi og verður kappkostað að fá inn flotta fyrirlesara. Ég hyggst bjóða reglulega upp á námskeið og fyrir klúbbmeðlimi verður ríkulegur afsláttur,“ segir hann og er að íhuga að kalla klúbbinn einfaldlega Pabbaklúbbinn.

„Það er gott að vera í hópi þar sem fólk skilur þig og oft er mestur árangur þegar fólk sem á margt sameiginlegt talar saman. Ég mun bjóða upp á karlahringa til dæmis fyrir karla sem hafa verið tálmaðir og fyrir feður sem hafa upplifað missi,“ segir Davíð og bætir við að töfrarnir gerist hvað helst þegar slíkt fer fram í formi jafningjastuðnings.

„Þetta er margra ára hugarsmíð og nú er ég að láta til skarar skríða og bjóða upp á þessa þjónustu. Þetta er í startholunum og það er mín trú að þetta mótist og þróist allt í rétta átt fyrst þörfin er augljóslega til staðar.“

Ítarlegt viðtal er við Davíð í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka