Samningar við Mýflug/Flugfélagið Erni um flug frá Reykjavík til Húsavíkur og Vestmannaeyja verða ekki framlengdir og verður áætlunarflugi félaganna því hætt um mánaðamótin.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélögunum. Félögin munu fljúga sitt síðasta flug til Húsavíkur 1. apríl.
Vegagerðin greindi frá því í febrúar að samið hefði verið við félögin um flug til Húsavíkur og Vestmannaeyja út marsmánuð.
„Það er dapurlegt að skortur á fjármagni komi í veg fyrir áframhaldandi áætlunarflug til Húsavíkur og Vestmannaeyja. Flug til dreifðari byggða landsins verður því miður ekki starfrækt á markaðslegum forsendum. Þar þarf ríkið að koma að málum með því að líta á flugsamgöngur sem hluta af samgönguinnviðum, líkt og vegi og ferjur,“ segir í tilkynningunni.
Eina áætlunarleið félaganna í kjölfarið verður á milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði en sá samningur gildir til 31. ágúst. Á næstu vikum verði sú flugleið boðin út samkvæmt ákvörðun Vegagerðarinnar.
„Eftir því sem best er vitað hyggst Vegagerðin bjóða út áætlunarflug til Húsavíkur og Vestmannaeyja til næstu ára, þrjá mánuði á ári yfir vetrartímann,“ segir í tilkynningunni.
Segir einnig að flugrekendur sem hafi sinnt þjónustu á grundvelli samninga við Vegagerðina hafi lengi bent á að slíkir samningar þurfi að vera til langs tíma og leiða þannig til fyrirsjáanleika hjá notendum og samningsaðilum.