Mögulegur olíuskortur í landinu þjóðaröryggismál

Þórður Guðjónsson, forstjóri Skeljungs, segir lága birgðastöðu eldsneytis vera þjóðaröryggismál. …
Þórður Guðjónsson, forstjóri Skeljungs, segir lága birgðastöðu eldsneytis vera þjóðaröryggismál. Hann segir að athygli stjórnvalda hafi verið vakin á málinu. Samsett mynd

Þórður Guðjónsson, forstjóri Skeljungs, segir nýlegt atvik þar sem mengaðri díselolíu var fyrir slysni dreift til viðskiptavina hafa meðal annars atvikast vegna lágrar birgðastöðu í landinu.

Þórður segir að innflytjendur olíu á Íslandi ekki hafa burði til að viðhalda varabirgðum í landinu til notkunar í áföllum. 

Engar varabirgðir í landinu

Þórður segir engar varabirgðir eldsneytis vera til í landinu. Gengið sé að því vísu að engin röskun verði nokkurn tíma á birgðaflutningum til landsins. Heimsfaraldurinn hafi sýnt að slíkar aðstæður geta komið upp.

Eins minnist Þórður á efnahagshrunið þegar dollarar voru ekki til reiðu til að kaupa eldsneyti til landsins. Um lága birgðastöðu núna segir Þórður:

„Öll olía á Íslandi, sem ekki fer á flugvélar, kemur frá Equinor í Noregi. Að jafnaði koma þrjú olíuskip í mánuði en í febrúar komu bara tvö. Það atvikaðist eftir því hvernig siglingum var háð hjá þeim. Við þurftum því að draga úr pöntun okkar og ég vænti þess að samkeppnisaðilar okkar á Íslandi hafi gert það líka.“

Lykilþáttur í orkuöryggi landsins

Þórður segir birgðastöðu eldsneytis vera lykilþátt í orkuöryggi landsins.

„Nú sjáum við að verið er að brenna eldsneyti fullum fetum til að búa til rafmagn, bæði til rafmagnsnotkunar og húshitunar, meðal annars til fiskbræðslu. Það er því búið að ýta undir olíunotkun sem ekki var gert ráð fyrir.“

Hann segir að erfitt sé fyrir olíuinnflytjendur að bregðast við orkuskorti hjá rafmagnssölum.

„Það að rafmagnsframleiðendur láti vita með stuttum fyrirvara hvort rafmagn er til eða ekki gerir það ekki að verkum að þeir sem eru að flytja inn olíu geti bætt upp skortinn einn tveir og þrír.“

Horft yfir olíutanka í Örfirisey. Þórður segir ósanngjarnt að ætlast …
Horft yfir olíutanka í Örfirisey. Þórður segir ósanngjarnt að ætlast til þess að olíufélögin sitji á miklum olíubirgðum til þrautavara. mbl.is/RAX

Ekkert komi í stað olíu

Þórður bendir að Ísland þoli ágætlega tímabundinn rafmagnsskort, en ekkert geti bætt raunverulegan olíuskort.

„Við getum verið rafmagnslaus í smá tíma, vorum það til dæmis á Reykjanesskaganum í eldsumbrotunum um daginn. Það er hægt að bæta upp húshitun og rafmagnsframleiðslu með olíu, en sé landið án olíu getum við ekki bætt okkur það upp.

Þetta er óháð því hvað fólki finnst um orkuskipti eða annað, þótt við stöndum okkur reyndar mjög vel í því, bæði með vatnsaflsveitum og hitaveitum.“

Olíufélögin geti ekki annast fjármögnun

Á máli Þórðar má greina að hann telji það mjög ósanngjarnt að ætlast sé til þess að olíufélögin kaupi einhverjar olíubirgðir til þrautarvara.

„Það segir sig sjálft að í því vaxtaumhverfi sem er á Íslandi í dag, þá getur enginn einkaaðili fjármagnað það að sitja á miklum olíubirgðum.

Fjármagnskostnaður hjá Skeljungi tvöfaldaðist milli áranna 2022 og 2023 og fjármagnskostnaðurinn í fyrra hjá okkur var um 500 milljónir meðan að hagnaðurinn var um 600 milljónir, þannig að það er lítið svigrúm þarna til að taka eitthvað á okkur.“

Hafi komið á borð þjóðaröryggisráðs

Þannig segir Þórður vandann snúast um fjárfestinguna en ekki innviði, olíufélögin hafi geymslugetuna, eigi að halda utan um varabirgðir í landinu.

„Það eru til innviðir á Íslandi og þekking til þess að tryggja það að hægt sé að koma upp varabirgðum á Íslandi. Það væri hægt að leita til olíufélaganna með það.“

Þórður er spurður að lokum hvort honum sé kunnugt um að þetta mál hafi verið tekið upp á vettvangi þjóðaröryggisráðs svarar hann:

„Já, ég tel það alveg skýrt. Það hefur verið vakin athygli á þessu hjá stjórnvöldum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka