Vandinn eykst með úrræðaleysi

Ríkisendurskoðun birti í vikunni svarta skýrslu um ópíóíðavanda á Íslandi.
Ríkisendurskoðun birti í vikunni svarta skýrslu um ópíóíðavanda á Íslandi. AFP

„Vandinn er alltaf til staðar og svo eykst hann og eykst. Og svo eykst hann alltaf líka þegar það er svona mikið úrræðaleysi.

Fólk er svo týnt og á engan að, veit ekki hvert það á að leita og þjónustan er oft takmörkuð,“ segir Hafrún Elísa Sigurðardóttir, teymisstjóri skaðaminnkunar hjá Rauða krossinum, í samtali við Morgunblaðið um fólk sem glímir við fíknivanda, þá sérstaklega ópíóíðafíkn.

Engin yfirsýn

Ríkisendurskoðun birti í vikunni svarta skýrslu um ópíóíðavanda á Íslandi. Þar kemur meðal annars fram að einstaklingum sem fengu læknisviðtal á göngudeild á Vogi vegna lyfjameðferðar við ópíóíðafíkn hafi fjölgað um 121% frá 2017 til 2023.

Í skýrslunni eru stjórnvöld harðlega ganrýnd fyrir stefnuleysi í málaflokknum. Spurð út í skýrsluna, og þann vanda sem hún fjallar um, segir Hafrún að það sé rétt sem fram kemur í skýrslunni að enginn aðili hafi yfirsýn í málaflokknum.

„Þegar við erum að þjónusta þennan hóp erum við einmitt ekki með yfirsýn og við erum ekki með yfirsýn yfir hvað er nákvæmlega að gerast. Þannig að við byggjum þetta á okkar tilfinningu og tilfinningu okkar af samtölum við þau sem nota þjónustu okkar,“ segir Hafrún.

Hún segir skorta heildarsýn og stefnu í málaflokknum. „Við erum alltaf í fínu samstarfi við Vog en það er líka ákveðið stopp hjá Vogi. Það er langur biðlisti þar og hefur ótrúlega mikil áhrif. Meðferðarkerfið á Íslandi grípur fólk ekki nógu fljótt, það er vitað mál,“ segir Hafrún.

Ekki eina birtingarmyndin

Rætt var við Valgerði Rúnarsdóttur, yfirlækni á sjúkrahúsinu Vogi, í Morgunblaðinu í gær og benti hún á þá staðreynd að fjöldi dauðsfalla hefði tvöfaldast frá árinu 2017.

Hafrún segir það ekki einu birtingarmynd þess að vandinn sé að aukast á Íslandi.

„Það er verið að tala um fleiri dauðsföll og það er gríðarlega alvarlegt. En það er líka að aukast mikið að fólk taki of stóra skammta án þess að það endi í dauðsfalli.

Fólk er samt að taka of stóran skammt og það hefur mikil áhrif á líkamann. Fólk sem við erum að þjónusta er alls ekki heilsuhraust,“ segir Hafrún.

Tölurnar styðja þetta. Fjöldi innlagna á Landspítala vegna ópíóíðamisnotkunar jókst um 194% milli 2017 og 2023.

Hún bendir á að flestir þeirra sem ofskammta leggist inn á bráðamóttökuna en fólk geti bara legið ákveðið lengi inni á bráðamóttöku. „Þá er það bara útskrifað út á götu, annaðhvort í gistiskýli eða kvennaathvarfið,“ segir Hafrún.

Ítarlega er fjallað um ópíóíðavandann á Íslandi í laugardagsblaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert