Börnum í transteymi BUGL hefur fjölgað umtalsvert

Töluverð fjölgun hefur verið á fjölda þeirra barna sem hafa …
Töluverð fjölgun hefur verið á fjölda þeirra barna sem hafa verið tekin inn í Transteymi BUGL hjá Landspítalanum árlega síðan árið 2012. Svipuð þróun hefur verið upp á teningnum hjá Transteymi fullorðinna hjá Landspítalanum. mbl.is/Þorsteinn

Þeim börnum hefur fjölgað umtalsvert sem hafa verið tekin inn í transteymi barna- og unglingageðdeildar Landspítalans (BUGL) árlega síðan árið 2012. Einnig hefur talsverð fjölgun verið í transteymi fullorðinna hjá Landspítalanum á síðustu árum. 

Þetta kemur fram í skriflegu svari embættis landlæknis til mbl.is.

Samantekið fyrir árin 2012 til 2023 voru 212 einstaklingar teknir inn í transteymi BUGL, eða um 18 einstaklingar að jafnaði á ári.

Árin 2012 til 2014 voru samanlagt 12 einstaklingar teknir inn í teymið en sú tala hefur verið á milli 20 til 44 á árunum 2018-2023. Ef ársmeðaltölin fyrir árin 2012 til 2014 eru borin saman við árið 2023 þá er þetta 600% aukning. Ef miðað er við árið 2022 er þetta 1.000% aukning.

„Samkvæmt sömu upplýsingum voru 2/3 hlutar hópsins einstaklingar sem fengið höfðu úthlutað kvenkyni við fæðingu,“ segir í svari embættisins.

55 börn fengið kynhormónabælandi meðferð

Spurð hversu mörg börn væru í lyfjameðferð sem tengdist kynvitund þeirra og hvernig lyf þetta væru segir í svari embættisins að um tvenns konar lyf sé að ræða.

Á árunum 2011 til 2022 hafi 55 börn fengið kynhormónabælandi meðferð (hormónablokk) sem gefin er til að stöðva tímabundið kynþroska einstaklings. Ekki fylgdu með tölur um skiptingu á milli ára.

„Hins vegar er um að ræða krosshormónameðferð. Þetta er lyfjameðferð sem tekur til hormónagjafar sem er í samræmi við kynvitund einstaklings (testósterón eða estrógen) og er ekki gefin einstaklingum undir 16 ára. Á árunum 2016 til 2022 fengu alls 28 einstaklingar þessa lyfjameðferð.“

Engar skurðaðgerðir framkvæmdar á börnum

Engar skurðaðgerðir hafa verið gerðar á börnum yngri en 18 ára.

„Öllum skurðaðgerðum til þess að staðfesta kynvitund hefur verið frestað þar til unglingur nær lögræðisaldri. Þetta vinnulag byggir á því að gæði upplýsts samþykkis vaxa eftir því sem barnið vex og þroskast og þeirri staðreynd að skurðaðgerðir eru óafturkræf inngrip. Það hefur því enginn einstaklingur undir 18 ára aldri gengist undir kynstaðfestandi skurðaðgerð á vegum trans teymis barna-og unglingageðdeildar Landspítala frá því að teymið var stofnað,“ segir í svari embættisins.

366% aukning í fjölda fullorðinna

Einnig hefur orðið veruleg fjölgun fullorðinna sem voru samþykktir í transteymi fullorðinna. Þannig voru 60 samþykktir í transteymið árið 2017 en 280 árið 2023. Það eru aukning um rúmlega 366%.

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala voru 649 tilvísanir samþykktar í transteymi fullorðinna á árunum 2017 til 2023. Á myndinni hér fyrir neðan sést hve marga einstaklinga teymið þjónustaði ár hvert.

„Ekki hefur verið tekið saman heildarfjölda í teyminu á milli ára. Þar sem um er að ræða komur til transteymis fullorðinna, þá getur heildarfjöldi sem raunverulega er í þjónustu teymisins verið færri,“ segir í svari embættisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka