„Það er náttúrulega farið að draga verulega úr [eldgosinu],“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur inntur eftir áliti á stöðunni á Reykjanesskaganum.
„Í rauninni má ráða það af því að ef eimurinn sem kemur upp úr fer að verða mjög áberandi þá er gasið farið að ferðast hraðar heldur en kvikan upp. Þá verður eimurinn svolítið áberandi.“
Ármann telur að gosinu ljúki innan skamms enda fari gígunum hægt og rólega fækkandi.
Er þetta dagaspursmál?
„Já ég myndi halda það. Ég efast um að það lifi páskana.“
Spurður hvort hann telji stutt í næsta gos að þessu loknu segir Ármann að þróunin verði líklega svipuð og fyrir síðustu gos en að lengri tími gæti liðið á milli.
Þegar gosið lognist út af fyllist kvikugeymirinn. Hann segir þó gögn benda til þess að það sé að draga úr innflæði í geyminn.
„Það hlýtur þá að þýða að það verði lengra á milli gosa ef það er að hægja á því.“