„Ekkert sem kom okkur algjörlega á óvart“

Hjálmar viðurkennir að upplýsingagjöf hefði geta verið betri.
Hjálmar viðurkennir að upplýsingagjöf hefði geta verið betri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nokkrum götum hefur verið lokað í vesturhluta Grindavíkur en unnið er að álagsprófun gatna í þeim hluta bæjarins, meðal annars til að tryggja öryggi íbúa og annarra. 

Þetta segir Hjálmar Hallgrímsson, varðstjóri lögreglunnar á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is í kjölfar þess að 60 tonna vinnuvél, eða Búkolla, féll ofan í sprungu við Kirkjustíg í Grindavík. 

Að sögn Hjálmars er sigdalur undir vesturhluta bæjarins, vestur Víkurbrautar, sem vitað var af.

Þar höfðu sést einhver merki um holrými en ekki vitað hversu djúp þau væru. Nú er unnið að því að kanna dýpt þeirra til að kortleggja stöðuna betur, að sögn Hjálmars sem bætir við að það sé ekkert víst að dýpt holrýmanna sé „neitt merkileg“.

Framkvæma sambærilegar prófanir annars staðar 

Aðspurður segir Hjálmar sprunguna við Kirkjustíg ekki hafa komið mjög á óvart þar sem ljóst sé að Sandhólssprungan, sem liggur í gegnum bæinn þveran og endilangan, liggi mjög nærri umræddri götu. 

„Þannig að þarna var verkefnið að þungapróf – það skilaði þessu, ekkert sem kom okkur algjörlega á óvart, en svona,“ segir hann. 

Hjálmar segir næsta verkefni að framkvæma sambærilegar prófanir í efri hluta bæjarins, eða nyrst í bænum, en í síðustu viku var farið yfir hverfin með jarðsjá og í kjölfarið ákveðið framkvæma álagsprófanir á nokkrum vel völdum stöðum. 

Því næst verður haldið í austurhluta bæjarins að sögn Hjálmars, en hann segir vitað mál að þar sé verkefnið stærra en í öðrum hlutum bæjarins.

Fólksbíll hefði ekki skilað sömu niðurstöðu

Spurður hvernig aðgengi sé háttað fyrir þá íbúa sem þurfa að komast um göturnar sem búið er að loka svarar Hjálmar að ef íbúar þurfi að komast um göturnar geti þeir haft samband við aðgerðastjórn í Grindavík og fengið leiðbeiningar þess efnis. 

„Við þurftum að merkja sprungurnar, stundum liggja þær alveg yfir veg eða götu, við erum búin að keyra þetta allt saman það er ekki vandamálið,“ segir Hjálmar og útskýrir að helsta ástæða þess að götunum hafi verið lokað á þessum tímapunkti sé til að auka öryggiskennd hjá fólki og taka af allan vafa. 

Því til viðbótar útskýrir Hjálmar að Búkollan sem féll í sprungu við álagsprófun á Kirkjustíg í dag hafi vegið um 60 tonn. „Þetta er að skila ákveðnum niðurstöðum,“ segir Hjálmar og áréttir að sama niðurstaða hefði að öllum líkindum ekki fengist á fólksbíl. 

„Á svæðum sem þetta heldur er engin ástæða til að bregðast frekar við,“ segir Hjálmar.

„Þetta var kannski ekki úthugsað hjá okkur“

Inntur eftir viðbrögðum við gagnrýni vegna upplýsingagjafar í kjölfar lokana á tilteknum götum segir Hjálmar:

„Hún er alveg réttmæt. Fólk spyr: „Af hverju er verið að loka núna, það var ekki lokað áður,“ og það er bara réttmæt gagnrýni. Við hefðum mátt upplýsa íbúa betur, allavega á þeim svæðum sem að einhver girðing eða takmörkun er fyrir heimilum.“

Hann bætir þó við að aðgerðastjórn í Grindavík bregðist við öllu. Þannig sé ekkert því til fyrirstöðu að fólk sæki húsmuni á heimili eða annað. 

„Já, já, þetta var kannski ekki úthugsað hjá okkur, en þetta var nú hugsunin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert