Hámarkshraði hefur verið lækkaður í samtals 57 götum þar sem Kópavogsbær er veghaldari. Var hámarkshraði í samtals 60 götum áður 50 km/klst., en eftir breytinguna verða götur með þeim hámarkshraða aðeins þrjár.
Umhverfissvið Kópavogsbæjar auglýsti fyrr í mánuðinum þessa breytingu í Stjórnartíðindum að fengnu samþykki lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og eftir samþykki bæjarstjórnar Kópavogs. Hefur auglýsingin þegar öðlast gildi sem þýðir að þessar hraðatakmarkanir eru nú í gildi. Verður umferðamerkjum og yfirborðsmerkingum breytt þar sem þess er þörf.
Kópavogur fetar með þessu í fótspor Reykjavíkur sem hafði áður tilkynnt um sambærilegar breytingar á hámarkshraða í höfuðborginni.
Samtals er Kópavogur veghaldari á 326 götum í sveitarfélaginu. Vegagerðin er eftir sem áður veghaldari á helstu stofnbrautum.
Af þessum 326 götum voru fyrir breytingu 265 götur með hámarkshraðann 30 km/klst., enda eru flestar götur húsagötur. Þá voru 60 götur með 50 km/klst. hámarkshraða og ein gata, Salavegur, var með 40 km/klst. hámarkshraða.
Eftir breytinguna verður lægri hámarkshraði á 57 af götunum 60 sem voru með 50 km/klst. hámarkshraða. Á 28 þeirra verður hámarkshraðinn 40 km/klst., en á 29 þeirra verður hámarkshraðinn 30 km/klst.
Á þremur götum verður hámarkshraðinn sem fyrr segir áfram 50 km/klst., en þær götur eru: Digranesvegur milli Hlíðarhjalla og Dalvegs, Vatnsendavegur og Dalvegur milli Fífuhvammsvegar og Digranesvegar.
Meðal gatna þar sem hámarkshraði er lækkaður úr 50 km/klst. í 30 km/klst. eru meðal annars Auðbrekka, Dalbrekka, Skemmuvegur, litagötur Smiðjuvegs, Bakkabraut, Hafnarbraut, Þinghólsbraut og Hagasmári.
Meðal gatna þar sem hámarkshraði er lækkaður úr 50 km/klst. í 40 km/klst. eru meðal annars Hlíðarhjalli, aðalbraut Smiðjuvegs, Túnbrekka, Vatnsendahvarf, Ögurhvarf, Bæjarlind og Smárahvammsvegur.
Sjá má heildarlistann yfir breytingar á hámarkshraða í Stjórnartíðindum og í töflunni hér fyrir neðan.