Mælst hafa há gildi brennisteinsdíoxíðs í Höfnum og Grindavík í dag og síðustu daga.
Þessi styrkur brennisteinsmengunar í andrúmsloftinu er talinn mjög óhollur. Talið er líklegt að flestir gætu fundið fyrir einkennum í öndunarfærum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni.
„Mikilvægt er að dvelja innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstingu,“ segir í tilkynningu stofnunarinnar. Þetta eigi ekki síst við þar sem vinna fari fram utandyra.
Vísað er til tilkynningar Vinnueftirlitsins frá því í síðustu viku, þar sem bent var á að fyrirtæki og stofnanir á suðvesturhorni landsins þyrftu að huga vel að þróun loftgæða vegna mögulegrar hættu á gasmengun.
Veðurspáin um og eftir hádegi í dag er norðaustan 3-8 m/s á gosstöðvunum og gasmengunin berst því til suðvesturs, yfir Grindavík og Svartsengi, auk þess sem gas gæti safnast saman nærri gosstöðvunum því vindur er fremur hægur.
„Í kvöld, nótt og framan af morgundegi er útlit fyrir austan 8-13 m/s á gosstöðvunum og mengunin berst þá til vesturs, m.a. yfir Hafnir. Á þessu tímabili er einnig mögulegt að vindur verði suðaustlægur um tíma og gæti mengunar þá orðið vart í Njarðvík, Keflavík og Sandgerði.“
Gasdreifingarspá Veðurstofunnar.