Aðalfundur kjördæmafélags Miðflokksins í Suðurkjördæmi var haldinn um helgina og var nýr formaður og stjórn þar kjörin. Patience A. Karlsson úr Reykjanesbæ var kjörin formaður og tekur hún við af Bjarna Gunnólfssyni.
Ásamt henni voru kjörin í stjórn þau Tómas Ellert Tómasson úr Árborg, sem jafnframt er varaformaður, Guðrún Kr. Jóhannsdóttir úr Hveragerði sem er gjaldkeri og þeir Guðni Hjörleifsson úr Vestmannaeyjum og Friðrik Ólafsson úr Þorlákshöfn sem eru meðstjórnendur.
Þeir Elís Anton Sigurðsson úr Árborg og Eggert Sigurbergsson úr Reykjanesbæ voru kjörnir varamenn.
Greint er frá þessu í tilkynningu.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, var á meðal gesta á aðalfundinum og var auk hefðbundinna aðalfundarstarfa farið yfir nokkur af helstu málum stjórnmálanna í dag, t.d. efnahagsmál, málefni Landsbankans, Bankasýslu ríkisins og TM og málaefni flóttamanna og landamæravörslu.
Patience á ættir sínar að rekja til Ghana og býr í Keflavík. Hún er kennari við Breiðholtsskóla og rekur verslunina AfroZone í Breiðholti. Hún er kennaramenntuð og er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.