Ráðningarbréfið efnislega eins

Dagur án ráðningarsamnings allan sinn tíma sem borgarstjóri.
Dagur án ráðningarsamnings allan sinn tíma sem borgarstjóri. mbl.is/Árni Sæberg

Efnislegt inntak ráðningarbréfs Dags B. Eggertssonar, formanns borgarráðs og fyrrverandi borgarstjóra, var ekki öðruvísi en í hefðbundnum ráðningarsamningi.

Þetta segja bæði forseti borgarstjórnar og borgarritari í samtali við mbl.is.

Eins og mbl.is greindi frá í síðustu viku þá var Dagur án ráðningarsamnings þann tíma er hann gegndi embætti borgarstjóra.

Í 2. mgr. 54. gr. sveita­rstjórn­ar­laga nr. 138/​​2011 seg­ir að sveit­ar­stjórn skuli gera skrif­leg­an ráðning­ar­samn­ing við fram­kvæmda­stjóra þar sem starfs­kjör hans eru ákveðin.

Fengu ábendingu og leiðréttu 

„Það hafa ekki verið borgarstjóraskipti síðan 2014 – ef ég man rétt – þangað til núna. Þannig þá fórum við að skoða hvað ætti að gera. Það hafði verið gert ráðningarbréf áður þannig við kynntum það í borgarráði í upphafi árs þegar að borgarstjóraskiptin höfðu farið fram,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar.

Hún segir það hafa legið fyrir að engin umgjörð í kringum laun eða annað slíkt hefði breyst.

„Þá kom ábending um það að líklegast væri nú ekki rétt að vera með ráðningarbréf heldur ráðningarsamning og það var bara réttmæt ábending og þá var því breytt,“ segir Þórdís og bætir við að ráðningarsamningurinn sé samt efnislega alveg eins og ráðningarbréfið.

Munurinn felst fyrst og fremst í forminu

Þorsteinn Gunnarsson borgarritari segir aðspurður að réttindi Dags hafi efnislega ekki verið öðruvísi þrátt fyrir að hafa ekki verið með ráðningarsamning.

„Ákvæði ráðningarbréfsins byggðu á samkomulagi við þáverandi borgarstjóra líkt og um ráðningarsamning væri að ræða. Munurinn liggur því í formi skjalsins sem staðfesti ráðningarsambandið ekki efni þess,“ segir Þorsteinn í skriflegu svari til mbl.is.

Hann segir að bæði ráðningarbréf og ráðningarsamningar feli í sér formbindingu á ráðningarsambandi milli vinnuveitanda og starfsmanns/stjórnanda.

„Munurinn á ráðningarbréfi og ráðningarsamningi felst því fyrst og fremst í forminu, þar sem ráðningarsamningur er almennt undirritaður af báðum aðilum ráðningarsambands en ráðningarbréf felur í sér staðfestingu á ráðningarsambandinu og ráðningarkjörum af hálfu vinnuveitanda, hvort sem um þau hefur verið samið eða ekki,“ segir Þorsteinn.

Ráðningarsamningar- og bréf lögð að jöfnu

Hann segir að hér á landi hafi verið innleidd tilskipun ESB (91/533/EBE) um skyldu vinnuveitanda til að skýra starfsfólki frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi.

Er þar meðal annars mælt fyrir um það efni sem að lágmarki skal koma fram í ráðningarsamningi eða skriflegri staðfestingu ráðningar og eru ráðningarsamningar og ráðningarbréf þar lögð að jöfnu.

„Tilskipunin var innleidd hér á landi með kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins og eru ákvæði um þetta efni í viðauka við kjarasamninga Reykjavíkurborgar,“ segir Þorsteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert