Sviptur ökuréttindum vegna ofsaaksturs

Ökumaðurinn á von á hárri sekt.
Ökumaðurinn á von á hárri sekt. mbl.is/Hari

Fimm ökumenn voru sektaðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti. Einn þeirra var sviptur ökuréttindum á staðnum en hann ók á 176 km hraða þar sem hámarkshraði er 80 km/klst. Sá á einnig von á hárri sekt.

Tveir handteknir vegna líkamsárásar

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um líkamsárás í hverfi 108 í Reykjavík. Tveir voru handteknir á staðnum og var þeim sleppt að lokinni skýrslutöku. Þeir eru báðir undir lögaldri og er málið því unnið í samráði við forráðamenn og barnavernd.

Teknir vegna innbrots

Tilkynning barst um yfirstandandi innbrot í miðbæ Reykjavíkur. Tveir voru handteknir og var þeim sleppt að lokinni skýrslutökum, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til kl. 5 í morgun.

Gisti í fangaklefa að eigin ósk

Ölvuðum einstaklingi var vísað á brott af hóteli. Hann hafði ekki í önnur hús að venda og fékk að gista í fangaklefa að eigin ósk.

Tilkynnt var um grunsamlegar mannaferðir í hverfi 104 en enginn fannst.

Þrjár tilkynningar bárust um partíhávaða.

Maður elti barn

Í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði og Garðabæ var tilkynnt um mann að elta barn. Maðurinn fannst ekki.

Tvær tilkynningar bárust einnig um partíhávaða.

Barn ók stolinni bifreið

Tilkynnt var um barn að aka stolinni bifreið í hverfi 109 í Breiðholti. Málið er unnið í samstarfi við forráðamenn og barnavernd.

Tilkynnt var um sprengingu í hverfi 201 í Kópavogi. Talið er að um flugelda hafi verið að ræða.

Skemmdarverk við Mjóddina

Tvær tilkynningar bárust um unglinga að skemma hluti í og við Mjóddina. Í bæði skiptin voru þeir farnir af vettvangi er lögreglu bar að garði.

Í Grafarvogi var tilkynnt um ölvaða unglinga. Málið er unnið í samstarfi við forráðamenn og barnavernd.

Einnig var tilkynnt um partíhávaða í hverfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert