Ekkert skólahald var í Húsaskóla í Grafarvogi í dag vegna páskafrís. Skólahald var þó í leikskólanum Fífuborg, sem er tímabundið staðsettur í húsnæði Húsaskóla. Þá var einnig starfsemi í frístundaheimilinu Kastala sem er einnig í skólanum.
Þetta segir Jóna Rut Jónsdóttir, aðstoðarskólastjóri Húsaskóla, í samtali við mbl.is í kjölfar elds sem kom upp í þaki Húsaskóla í Grafarvogi á þriðja tímanum í dag. Slökkvistarfi er að mestu lokið.
Jóna segir rýmingu hafa gengið vel og þakkar það helst nýyfirstaðinni brunaæfingu sem bæði nemendur og starfsfólk Húsaskóla og Fífuborgar tóku þátt í. Nemendur Fífuborgar hafi þannig vitað hvert þau ættu að fara og því gekk rýming, yfir í Grafarvogslaug, hratt og örugglega fyrir sig að sögn Jónu.
Aðspurð kveðst Jóna telja ólíklegt að hægt verði að opna leikskólann Fífuborg í húsnæði Húsaskóla á morgun. Enn á þó eftir að meta skemmdir í kjölfar eldsins en Jóna segir líklegt að aðallega sé um reyk- og vatnsskemmdir að ræða.
Hún segir eldinn aðallega hafa verið einangraðan við einn hluta skólans, eða bókasafnið. Því bindur hún vonir við að hægt verði að hefja skólahald með venjubundnum hætti að loknu páskafríi.