Höskuldur Daði Magnússon
„Við erum með alla anga úti við að útvega svæði undir íbúðir,“ segir Gunnar Kristinn Ottósson, skipulagsfulltrúi í Reykjanesbæ. Mikilli fjölgun íbúa í Reykjanesbæ verður mætt með kröftugri húsnæðisuppbyggingu á næstu misserum og árum. Fyrirhugað er að um 3.500 íbúðir verði byggðar á næstu árum í sveitarfélaginu. Þétta á byggð á nokkrum svæðum en mesta uppbyggingin verður á Ásbrú. Alls er ráðgert að íbúum þar fjölgi um 10.000 á næstu tveimur áratugum.
Gunnar segir að til að halda í við íbúafjölgun þurfi um 250-300 nýjar íbúðir á ári í sveitarfélaginu. Vegna efnahagsástandsins hafi ekki komið nema 150 á markað á síðasta ári. „Það þarf því að spýta í. Og svo bætist Grindavík við.“
Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco, segir að þessa dagana sé unnið að deiliskipulagi fyrir íbúðauppbyggingu á Ásbrú. Stefnt sé að uppbyggingu á fjórum reitum fyrsta kastið sem hver um sig rúmi allt að 200 íbúðir. Alls verði um 800 íbúðir byggðar í þessum áfanga. Um er að ræða fjölbýli, sérbýli, par- og raðhús og fyrstu skóflustungur verða teknar fljótlega.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.