Vara við miklum sólvindi

Norðurljósavirkni hefur verið mikil undanfarna daga.
Norðurljósavirkni hefur verið mikil undanfarna daga. mbl.is/Kristófer Liljar

Haf- og lofts­lags­stofn­un Banda­ríkj­anna (NOAA) gaf í gær út viðvörun vegna mikils sólvinds í geimnum. Sólvindur getur bæði haft áhrif á fjarskipti og norðurljósavirkni. 

Viðvörunin tók gildi í gær og gildir út daginn í dag. Ekki þykir ástæða til að almenningur hafi áhyggjur að því er fram kemur í viðvöruninni. Independent greinir frá. 

Sólvindur getur truflað útvarpsbylgjur

Til nánari útskýringa segir á vef Veðurstofunnar að sólvindur sé straumur rafhlaðinna einda frá sólinni sem skellur stöðugt á segulsviðinu og sveigir það í segulhjúp sem nær þó að verja jörðina og lofthjúpinn að mestu leyti fyrir ágangi eindanna. 

Eins og fram kemur hér að ofan þarf almenningur ekki að óttast því samkvæmt NOAA er talið að umræddur sólvindur muni einna helst trufla útvarpsbylgjur, til að mynda í flugvélum. NOAA segir það þó ekki heldur mikið áhyggjuefni þar sem hægt sé að ná sambandi við flestar atvinnuflugvélar í gegnum gervihnattasíma. 

Fagnaðarefni fyrir aðdáendur norðurljósa

Þá getur mikill sólvindur verið mikið fagnaðarefni fyrir aðdáendur norðurljósa enda stafa norðurljós af truflunum á segulsviði jarðar, eins og þeim sem verða þegar það er sólstormur.

Því gæti verið ráð að horfa til himins í kvöld og líta eftir norðurljósum en samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni hefur verið mikil norðurljósavirkni undanfarna daga. Hér má skoða norðurljósaspá fyrir kvöldið og næstu daga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert