Virðist hafa dregið úr virkni: Ný hrauntunga sást

Eldgosið í Sundhnúkagígum.
Eldgosið í Sundhnúkagígum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svo virðist sem dregið hafi aðeins úr virkninni í eldgosinu við Sundhnúkagíga í nótt. Of snemmt er segja til um hvað þetta þýðir varðandi framhaldið, að sögn náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Tveir gígar eru stærstir á meðan þrír aðrir eru minni.

Virk hrauntunga 

Flogið var með dróna yfir svæðið í gærkvöldi og sást þá hrauntunga sem er búin að vera virk í nótt. Hún er staðsett suðaustanmegin í Hagafelli og er þar um að ræða eina framskriðið í hrauninu, segir Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Hrauntungan er norðan við svæðið þar sem flætt hefur í Melhólsnámu en þar virðist ekki vera virkni sem stendur.

Engin virkni hefur sömuleiðis verið í hrauntungunni nálægt Suðurstrandarvegi síðustu daga.

Mengun gæti borist síðdegis

Engin gasmengun var í nótt yfir Grindavík. Síðdegis í dag er spáð austan 5 til 10 metrum á sekúndu og gæti mengun borist aftur í átt að Svartsengi og yfir Reykjanesbæ og Hafnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert