Getur ekki endað með öðru en gosi

Askja.
Askja. mbl.is

Skjálftahrina hófst í Öskju í gærmorgun og áttu skjálftarnir upptök sín norðvestan við Dyngjufjöll. Stærsti skjálftinn var 3,5 að stærð og reið yfir klukkan 10.40.

Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur segir aðdragandann að næsta eldgosi í Öskju hafa verið langan og að skýr merki séu um að þar sé eitthvað á seyði sem að lokum leiði til eldgoss.

„Það getur ekki endað öðruvísi,“ segir Ármann.

„Við erum náttúrulega búin að vera að bíða eftir henni. Hún er búin að vera að þenja sig í raun frá 2012 því þá bræddi hún af sér ís um hávetur, sem er nú eiginlega ekki mögulegt nema að þú bætir hita út í vatnið.“

Breskir vísindamenn séu með afar þétt og þar af leiðandi nákvæmt mælanet á svæðinu og hafi um nokkurt skeið bent á að í Öskju sé kvika sem sé léttari en önnur. Fari sú kvika af stað verði sprengigos á svæðinu.

„Ef eitthvað svoleiðis fer af stað þá verður náttúrulega sprengigos, en hvort það verður lítið eða stórt, það vitum við ekki.“

Breytingar hafa verið á landrisi við Öskju en af þremur mælum á svipuðu svæði sýnir einn þeirra þó engar breytingar, sem sérfræðingar Veðurstofunnar hafa velt vöngum yfir.

Ármann segir aftur á móti ekki endilega óvenjulegt að mælarnir sýni ólíkar niðurstöður enda sé Askja öðruvísi eldfjall en við höfum áður verið að glíma við.

„Af því að þú ert kominn með þessa miklu sprungu sem myndar öskjuna þá geturðu verið að sjá mismunandi hluti eftir því hvort þú ert inni í öskjunni eða fyrir utan. Svo náttúrlega bætir ekki úr skák að við erum með heilt stöðuvatn þarna inni í öskjunni og það eru engir mælar þar á botninum. Þannig að við vitum í rauninni ekkert hvað gerist á botninum í Öskju,“ segir Ármann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert