Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar mannanna, sem hér sjást á ferð í dökkgráum Toyota Yaris, í tengslum við mál sem er til rannsóknar hjá embættinu.
Þeir sem þekkja til mannanna, eða vita hvar þá er að finna, eru vinsamlegast beðnir um að hringja í lögregluna í síma 112, en upplýsingum má jafnframt koma á framfæri í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu en þar segir jafnframt að þrátt fyrir að andlit mannanna sjáist aðeins að hluta þá megi ætla að einhverjir geti samt borið kennsl á þá.
Málið tengist þjófnaðinum sem átti sér stað í Hambraborg í Kópavogi á tíunda tímanum í gærmorgun þegar tveir þjófar brutust inn í peningaflutningabíl Öryggismiðstöðvarinnar og höfðu á brott með sér um 20-30 milljónir króna.
Samkvæmt heimildum mbl.is voru starfsmenn öryggisfyrirtækisins að safna fjármunum úr spilakössum í Hamraborg þegar þjófnaðurinn átti sér stað en spilakassar eru í Vídeómarkaðnum og hjá Catalinu.
Heimir Ríkarðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni í Kópavogi, staðfestir að bíll öryggismiðstöðvarinnar hafi verið að tæma kassa á svæðinu, en segir það hafi einungis verið gert á Vídeómarkaðnum.
Lögreglan lýsti fyrst eftir bifreiðinni, sem mennirnir aka á, um miðjan dag í gær. Þá sagði í tilkynningu frá lögreglu að á bifreiðinni væru tvær mismunandi númeraplötur, þ.e. NMA 87 að aftan og SLD 43 að framan en báðum þessum skráningarnúmerum hafði verið stolið af öðrum ökutækjum.
Heimir segir harla ólíklegt að sömu númeraplötur séu enn á bifreiðinni.