Lögreglan birtir myndir af mönnunum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar mannanna, sem hér sjást á ferð í dökkgráum Toyota Yaris, í tengslum við mál sem er til rannsóknar hjá embættinu.

Þeir sem þekkja til mannanna, eða vita hvar þá er að finna, eru vinsamlegast beðnir um að hringja í lögregluna í síma 112, en upplýsingum má jafnframt koma á framfæri í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu en þar segir jafnframt að þrátt fyrir að andlit mannanna sjáist aðeins að hluta þá megi ætla að einhverjir geti samt borið kennsl á þá.

Fjármunir úr spilakössum Vídeómarkaðsins

Málið tengist þjófnaðinum sem átti sér stað í Hambraborg í Kópavogi á tíunda tímanum í gærmorgun þegar tveir þjófar brutust inn í peningaflutningabíl Öryggismiðstöðvarinnar og höfðu á brott með sér um 20-30 milljónir króna. 

Sam­kvæmt heim­ild­um mbl.is voru starfs­menn ör­ygg­is­fyr­ir­tæk­is­ins að safna fjár­mun­um úr spila­köss­um í Hamra­borg þegar þjófnaður­inn átti sér stað en spila­kass­ar eru í Víd­eó­markaðnum og hjá Ca­tal­inu. 

Heim­ir Rík­arðsson, lög­reglu­full­trúi hjá lög­regl­unni í Kópa­vogi, staðfestir að bíll öryggismiðstöðvarinnar hafi verið að tæma kassa á svæðinu, en segir það hafi einungis verið gert á Vídeómarkaðnum. 

Lögreglan lýsti fyrst eftir bifreiðinni, sem mennirnir aka á, um miðjan dag í gær. Þá sagði í tilkynningu frá lögreglu að á bifreiðinni væru tvær mismunandi núm­era­plöt­ur, þ.e. NMA 87 að aft­an og SLD 43 að fram­an en báðum þess­um skrán­ing­ar­núm­er­um hafði verið stolið af öðrum öku­tækj­um.

Heim­ir segir harla ólíklegt að sömu númeraplötur séu enn á bifreiðinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert