Stálu peningakassa úr peningaflutningabíl

Lögreglan leitar þjófa sem stálu umtalsverðum fjármunum úr bíl öryggisfyrirtækis.
Lögreglan leitar þjófa sem stálu umtalsverðum fjármunum úr bíl öryggisfyrirtækis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar þjófa sem brutust inn í bíl í Hamraborg í Kópavogi í gærmorgun og stálu umtalsverðum fjármunum.

Heimir Ríkarðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni í Kópavogi, segir að brotist hafi verið inn í bíl frá öryggisfyrirtæki sem var í verðmætaflutningum og þjófarnir hafi stolið peningakassa úr bílnum sem í hafi verið umtalsverðir fjármunir.

Skýrslur teknar af vitnum

Heimir segir að þjófarnir hafi verið á Yaris-bifreið sem lýst var eftir í gær en hún er á stolnum númeraplötum að framan og aftan.

„Málið er bara til rannsóknar hjá okkur. Við erum búnir að taka skýrslur af nokkrum vitnum og erum að vinna hratt og örugglega í málinu,“ segir Heimir við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert