Hermann Nökkvi Gunnarsson
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, mun í dag eiga fund með Bankasýslu ríkisins. Til umræðu verður sú staða sem upp er komin vegna fyrirhugaðra kaupa Landsbankans á TM af Kviku banka.
Þetta segir Þórdís í samtali við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum.
„Nú hefur bankaráðið svarað Bankasýslu og þeir með málið hjá sér. Næsta skref hjá mér er að funda með stjórn Bankasýslunnar, sem ég geri í dag,“ segir Þórdís.
Fyrir rúmri viku síðan sendi Bankasýslan bréf til Þórdísar og til bankaráðs Landsbankans vegna fyrirhugaðra kaupa bankans á TM.
Í því bréfi sagði að Bankasýslunni hefði verið alls ókunnugt um viðskiptin og að stofnunin tæki undir áhyggjur sem Þórdís hafði lýst yfir á samfélagsmiðlum í kjölfar tilkynningar Kviku um fyrirhugaða sölu.
Fjórum dögum eftir það bréf sendi Landsbankinn frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að bankinn hafi upplýst Bankasýsluna um fyrirhuguð kaup á TM frá miðju ári í fyrra.
Enn fremur að engar athugasemdir hafi verið gerðar við áætlanir bankans.
Spurð hvort til greina komi af hennar hálfu að koma því áleiðis til Bankasýslunnar að reka bankaráð og bankastjóra vegna málsins segir Þórdís:
„Ég tek þetta mál í þeirri röð sem það birtist og næsta skref er að funda með Bankasýslunni og ég geri það í dag.“