Enn safnast kvika undir Svartsengi

Virkni í eldgosinu í Sundhnúkagígum hefur verið nokkuð stöðug síðustu …
Virkni í eldgosinu í Sundhnúkagígum hefur verið nokkuð stöðug síðustu daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Virkni í eldgosinu í Sundhnúkagígum hefur verið nokkuð stöðug síðan á mánudaginn 25.mars. Órói hefur haldist stöðugur síðan þá sem og virknin í gígunum þremur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands en þar segir að hraun renni áfram í hrauná til suðurs frá gígunum að mestu ofan á hraunbreiðunni sem myndaðist á fyrstu dögum gossins.

„Land heldur áfram að rísa í Svartsengi en mun hægar en það hefur gert fyrir þau eldgos eða kvikuhlaup sem orðið hafa á síðustu mánuðum. Það bendir til þess að enn safnist upp kvika í söfnunarsvæðið undir Svartsengi þótt það sé eldgos í gangi. Lítil sem engin skjálftavirkni hefur mælst á svæðinu,“ segir í tilkynningunni.

Meðfylgjandi mynd sýnir útbreiðslu hraunsins eins og hún var kortlögð …
Meðfylgjandi mynd sýnir útbreiðslu hraunsins eins og hún var kortlögð frá gervitunglamynd síðan 26. mars og svæði þar sem breytingar hafa orðið á milli 20. og 26. mars. Kort/Veðurstofa Íslands

Áfram hætta á gasmengun

Há gildi brennisteinsdíoxíðs (SO2) mældust í skamma stund í Grindavík í nótt (allt upp í 9000 míkrógrömm/m3) en þau lækkuðu fljótt aftur niður í eðlileg gildi. Há gildi brennisteinsdíoxíðs (SO2) mældust í Bláa lóninu og í Höfnum í gær. Hæst fóru gildin í 7000 microgröm/m3 í Bláa lóninu og í 2000 microgröm/m3 í Höfnum. Slíkur styrkur er talinn mjög óhollur og líklegt að flestir gætu fundið fyrir einkennum í öndunarfærum. Mikilvægt er að dvelja innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstingu þegar svo há gildi mælast.

„Gaslosun frá eldgosinu er líkleg til að valda áfram mengun á Reykjanesskaganum og bendum við fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði og kynna sér þar viðbrögð við loftmengun frá eldgosinu,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert