„Það hefur eitthvað dregið úr gosinu en það er samt ekkert þannig að það sé að fara að slokkna á því.“
Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, við mbl.is en gosið við Sundhnúkagíga hefur nú staðið yfir í ellefu daga. Ennþá gýs í þremur gígum.
Benedikt útilokar ekki að gosið getið staðið yfir í nokkrar vikur til viðbótar. GPS-mælingar síðustu daga benda til þess að landris sé í gangi í Svartsengi, en mun hægara en áður. Það bendir til þess að enn safnist upp kvika í söfnunarsvæðið undir Svartsengi þótt það sé eldgos í gangi.
„Þetta getur alveg orðið langt gos því það er ekkert að sýna að það sé að klárast. Það gæti líka alveg lognast út af snögglega með litlum fyrirvara,“ segir Benedikt.
Þetta er fjórða gosið á Sundhnúkagígaröðinni frá því í desember en gosin þrjú þar á undan voru stutt og dóu út á fáeinum dögum.
„Það er eins og það hafi ekki lokast fyrir flæðið upp eins og gerðist í gosunum þremur á undan. Þetta gos virðist vera að haga sér meira eins og var í Fagradalsfjalli þar sem kvikan lekur upp. Það er því ekkert útilokað að þetta gos geti staðið yfir í langan tíma,“ segir Benedikt.