Engar breytingar hafa orðið á eldgosinu við Sundhnúkagíga í dag og hefur virknin þannig haldist nokkuð stöðug síðan á mánudag.
Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir áfram stöðuga virkni úr gígunum þremur og ekkert sem bendi til þess að það sé að draga úr gosinu eins og staðan er núna.
Land heldur áfram að rísa í Svartsengi en Einar segir landrisið mun hægara en í aðdraganda síðustu eldgosa á gígaröðinni. Það bendi til þess að enn sé að safnast kvika í kvikuhólfið undir Svartsengi. Þá segir hann að lítil sem engin jarðskjálftavirkni sé á svæðinu.
Gervitunglið Sentinel–2 var á ferðinni yfir Reykjanesskaga í dag.
Rannsóknareining í eldfjallafræði og náttúruvá við Háskóla Íslands birti myndir úr fluginu á Facebook fyrr í kvöld en myndin er sett saman til að draga fram hitaútgeislun á svæðinu.
Á myndinni kemur þannig vel fram hvar hraunið sækir fram auk þess sem greinilega má sjá hrauntjörnina sem hefur myndast við gígana þrjá sem enn eru að störfum.