Hópur rannsóknarmanna kom snjóflóði viljandi af stað í Eldborgargili fyrir utan skíðavæði Bláfjalla og Skálafells.
Þetta staðfestir sérfræðingur hjá snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands.
Í færslu á Facebook-síðu skíðasvæðanna tveggja segir að þau hafi verið lokuð í morgun sökum hvassviðris, en einnig var varað við snjóflóðahættu á svæðinu utan skíðasvæðanna.
Segir í færslunni að göngufólk hafi sett af stað snjóflóð í Eldborgargili.
Sérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands staðfesti í samtali við mbl að um hóp rannsóknarmanna hefði verið að ræða, en ekki göngufólk.
„Þetta eru pínulítil flóð sem sett eru af stað til þess að kanna snjólög,“ segir Óliver Hilmarsson, sérfræðingur á sviði snjóflóða hjá Veðurstofu Íslands.
Hann segir að flóðið hafi verið sett af stað viljandi með því að labba á ákveðnum svæðum.
Þá segir hann það tíðkast talsvert að setja smávægileg snjóflóð af stað í rannsóknarskyni.
Óliver telur að misskilningurinn hafi átt rætur að rekja til þess að á vef Veðurstofunnar hafi staðið að snjóflóðið væri af mannavöldum og var það ekkert frekar tilgreint.