Lögreglan rannsakar töskurnar

Þjófanna er enn leitað.
Þjófanna er enn leitað. mbl.is/Árni Sæberg

Ómar Brynjólfsson, framkvæmdastjóri mannaðra lausna hjá Öryggismiðstöðinni, segir að atburðurinn í Hamraborg í fyrradag, þar sem brotist var inn í verðmætaflutningabifreið fyrirtækisins og úr henni stolið töskum með peningum, kalli sjálfkrafa á endurskoðun verkferla.

Þjófarnir höfðu á brott með sér sjö töskur úr bifreiðinni sem þeir skildu eftir við Esjumela og í Mosfellssveit en þjófanna er enn leitað.

„Almennt gilda strangir verkferlar um flutning verðmæta og of snemmt að segja hvort uppfæra þurfi einhverja hluta núverandi verkferla. Við erum sífellt að meta öryggisráðstafanir í okkar starfsemi og þær taka mið af áhættumati hverju sinni,“ segir Ómar í skriflegu svari til mbl.is spurður hvort ránið í Hamraborg kalli á breytta verkferla og auknar öryggisráðstafanir.

Eru þið með nákvæma tölu yfir ránsfenginn?

„Öll verðmæti í flutningi eru vel skráð og nákvæm tala liggur því fyrir. Við veitum engar nánari upplýsingar um þjónustu okkar við viðskiptavini,“ segir Ómar.

Spurður hvort litasprengjurnar sem í töskunum voru hafi virkað segir hann:

„Töskurnar eru enn í rannsókn hjá lögreglu og sérhæfðir tæknimenn okkar hafa ekki fengið að skoða töskurnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka