Litlar breytingar hafa orðið í eldgosinu við Sundhnúkagíga í nótt en gosið hefur nú staðið yfir í ellefu daga eða frá 16. mars.
Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að litlar breytingar hafa orðið á gosinu frá því í gær.
„Það mallar áfram í þremur gígum með svipuðum krafti og í gær,“ segir Lovísa en nyrsti gígurinn er sá stærsti.
Hún segir að það hafi orðið aðeins hækkun á gildum brennisteinsdíoxíðs í nótt og í morgun en ekki nóg til að vera með viðbragð yfir því.