„Mögulega endar þetta með gosi“

Askja.
Askja. mbl.is

Skjálftahrina varð í norðvesturhluta Öskju í fyrradag þar sem mældust um 30 jarðskjálftar á nokkrum klukkustundum. Sá stærsti mældist af stærðinni 3,5 sem varð á um fimm kílómetra dýpi.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, segir við mbl.is að það hafi verið landris á þessu svæði þótt hægst hafi á því síðastliðið haust.

„Það eru skýr merki um landris þarna ennþá og það bendir til þess að skjálftarnir tengist þessu landrisi. Mögulega endar þetta með gosi þar sem kvika er væntanlega að safnast þarna fyrir en það er ekkert ennþá sem bendir til þess að það sér einhver stór atburður í aðsigi þarna,“ segir Benedikt.

Gaus síðast við Öskju árið 1961

Síðast gaus við Öskju árið 1961 en þá varð hraungos. Fjöldi smærri eldgosa varð á þriðja áratug síðustu aldar en síðasta sprengigos varð árið 1875, sem olli mikilli eyðileggingu í nærsveitum eldstöðvarinnar.

Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur sagði í samtali við mbl.is í vikunni að aðdragandinn að næsta eldgosi í Öskju hafa verið langan og að skýr merki séu um að þar sé eitthvað á seyði sem að lokum leiði til eldgoss.

Jarðskjálftavirkni hefur lítið breyst á milli mánaða og verið nokkuð stöðug undanfarið þar til í fyrradag. Síðast mældust skjálftar yfir 3 að stærð í janúar 2022 og október 2021. 

„Í kjölfarið á gosinu 1961 varð landris sem mældist alveg til ársins 1972. Eftir Kröflueldana seig landið alveg til ársins 2021 þegar land fór aftur að rísa,“ segir Benedikt.

Benedikt segir að öllum líkindum sé basísk kvika að safnast fyrir og að hún muni ekki framkalla sprengigos nema kvikan komist í snertingu við vatn eða hún skjóti sér í inn í eitthvað súrara kvikuhólf.

Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands segir að aflögun í Öskju hafi verið stöðugt í gangi í um tvö ár frá því í lok sumars 2021. Síðasta haust hafi þó dregið verulega úr hraða þess. Þá segir að mælingar frá því í lok síðasta árs sýna hins vegar að hraði aflögunarinnar hefur aftur aukist en er þó minni en hann var fyrir haustið 2023.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert