Ráðuneytið gerði samning við Varðberg

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra á hádegisfundi Varðbergs í fyrra.
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra á hádegisfundi Varðbergs í fyrra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Utanríkisráðuneytið hefur gert samstarfssamning við Varðberg, félag um vestræna samvinnu og alþjóðamál.

Samstarfið snýr að kynningu og fræðslu á sviði öryggis- og varnarmála, í tengslum við 75 ára afmæli stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins. Fram kemur í tilkynningu að utanríkisráðuneytið og Varðberg hafi átt í góðu samstarfi, bæði formlegu og óformlegu, allt frá stofnun félagsins.

„Samstarf utanríkisráðuneytisins við Varðberg hefur stuðlað að upplýstri umræðu og fræðslu um öryggis- og varnarmál í gegnum tíðina. Það er mikilvægt að efla upplýsta umræðu um gildi bandalagsins á þessum tímamótum og stuðla að skoðanaskiptum um öryggis- og varnarmál Íslands,“ sagði Bjarni Benediktsson við undirritun samningsins, að því er segir í tilkynningunni.

Samningurinn nær til afmarkaðra verkefna, þar með talið ráðstefnuhalds, kynninga og fræðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert