Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, ýtir á eftir svörum starfshóps sem innviðaráðherra skipaði í fyrra varðandi bættar almenningssamgöngur til Keflavíkur.
Í samtali við mbl.is segir Hildur starfshópinn hafa átt að skila inn lokatillögum í september í fyrra en að enn bóli ekkert á þeim.
„Staðan á þessari þjónustu er enn til skammar og Keflavíkurflugvöllur er auðvitað okkar helsta gátt út í heim og okkar gesta hingað,“ segir hún,.
Hildur beindi fyrirspurn til innviðaráðherra fyrir rúmu ári þar sem hún spurði hvort eitthvað í lögum, samningum við Isavia eða útboðsgögnum Isavia til verkkaupa stæði í vegi fyrir því að Strætó geti haft biðstöð nærri aðal inn- og útgöngum flugstöðvarinnar og auglýst þjónustu sína innan hennar.
Birti Hildur í gær tíst á X-reikningi sínum þar sem hún fylgdi fyrirspurninni eftir. Svar innviðaráðherra hefði á sínum tíma kveðið á um að ekkert stæði í vegi fyrir því í lögum eða samningum um að almenningssamgöngur væru betur tengdar við flugstöðina.
„Mér finnst bara rétt að ganga á eftir þessu því þetta skiptir máli,“ segir Hildur að lokum.
Það gladdi mig þegar ráðherra svaraði fyrirspurn minni um bætta þjónustu Strætó á milli RVK og KEF með að starfshópur myndi skila tillögum fljótt. Þar sem ár er liðið og ástandið er enn til skammar fylgi ég þessu hér eftir í þeirri von að bæta megi þjónustuna sem allra fyrst. https://t.co/qtPAe3KOqP pic.twitter.com/WdFB4ET9KT
— Hildur Sverrisdóttir (@hildursverris) March 26, 2024