Hæstiréttur staðfesti í dag samkomulag sem Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri, gerði við undirmenn sína skömmu áður en hann lét af störfum.
Hæstiréttur féllst á kröfur yfirlögregluþjóna hjá embætti ríkislögreglustjóra að greiða þeim laun í samræmi við samkomulag sem Haraldur gerði við viðkomandi starfsmenn í lok ágúst 2019 um endurskoðun á launakjörum.
„Ég er ekki búinn að lesa dóminn en niðurstaðan er sú að það ber að virða þennan samning. Það er gott að þetta mál sé búið og sé úr sögunni,“ segir Ásgeir Karlsson, einn af yfirlögregluþjónunum, í samtali við mbl.is en dómurinn hefur ekki verið birtur.
Yfirlögregluþjónarnir höfðuðu málið í kjölfar ákvörðunar Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, núverandi ríkislögreglustjóra, um að afturkalla launahækkanir sem Haraldur gerði við þá. Samkomulagið náði til tveggja yfirlögregluþjóna og sjö aðstoðaryfirlögregluþjóna.
Í svari fjármálaráðherra á Alþingi árið 2019 kom fram að samkomulagið kostaði ríkissjóð 360 milljónir.