Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona er alvarlega að hugleiða að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands af fullum heilindum.
Hún segist vera eldri og lífsreyndari heldur en í forsetakosningunum árið 2012 þegar hún hafi rétt upp höndina meira af óþekkt en af alvöru.
Steinunn Ólína segir vega þyngst hvatning bláókunnugs fólks úr röðum almennings frá áramótum, fólki sem finnst það þekkja hana, veit hvar það hefur hana, hefur lesið það sem hún hefur skrifað um samfélagsmál og veit að hún hræðist ekki mótlæti. Þetta skrifar Steinunn Ólína í skoðanapistli á Vísi undir yfirskriftinni Bréf til þjóðarinnar.
Í pistlinum rekur Steinunn Ólína þann samkvæmisleik sem hefur átt sér stað síðan Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tilkynnti þjóðinni að hann hygðist ekki gefa kost á sér áfram. Síðan þá hafi fréttamiðlar riðið á vaðið með skoðanakannanir þar sem tilgreind voru nöfn ýmissa þekktra einstaklinga.
„Það er íslenskur samkvæmisleikur að draga frambjóðendur sundur og saman í háði og í aðdraganda forsetaskipta verða þetta hálfgerð vorblót,“ skrifar Steinunn Ólína sem gagnrýnir Íslendinga fyrir að sólunda tíma sínum í það sem þá greinir á um frekar en að leita að því sem þeir geta áorkað saman.
„Það virðist auðveldara fyrir okkur – sem er umhugsunarefni – að telja upp vankosti fólks en að leita að því góða í hverjum og einum.“
Áður en Steinunn Ólína talar beint út, eins og hún orðað það sjálf í pistlinum, þá fer hún yfir þá forsetaframbjóðendur sem þegar eru komnir fram. Í því samhengi segir hún að á þessari stundu sé ekki kominn fram neinn frambjóðandi sem hún getur fullyrt að hún myndi kjósa án umhugsunar.
„Það má ekki túlka svo að mér finnist enginn frambærilegur, langt í frá,“ skrifar Steinunn Ólína sem kveðst vera í sama vanda hvað stjórnmálin snertir því hún geti ekki samsamað sig fyllilega neinum flokki.
Hvað sem því líður segir Steinunn Ólína að ef hún gefur kost á sér í komandi forsetakosningum þá muni hún gera það af heilum hug.
„Af djúpu þakklæti fyrir að fæðast í þessu fallega og örugga landi og hafa notið þess atlætis sem raun ber vitni.“