„Það er nóg búið að leggja á okkur“

Hilmar segir skipta miklu máli að tjónamat NTÍ á híbýlum …
Hilmar segir skipta miklu máli að tjónamat NTÍ á híbýlum Grindvíkinga sé faglega unnið. Samsett mynd/Aðsend/Kristinn Magnússon

„Staðan er að það virðist vera eitthvert samhengi á milli skýrslnanna, það vantar sömu upplýsingarnar, það vantar myndir og skýringar,“ segir Grind­vík­ing­ur­inn Hilm­ar Freyr Gunn­ars­son, um skýrslur um ástand fasteigna í Grindavík.

Fjallað var um mál Hilmars víða í síðustu viku en hann setti spurningarmerki við verklag verkfræðistofanna sem annast ástandsskoðanir og skýrslur fyrir Náttúruhamfaratryggingu Íslands (NTÍ).

Ekki eðlilegt að rökstyðja ekki í matsskýrslu

Hilmar er sjálfur menntaður bygg­ing­a­fræðing­ur og húsa­smíðameist­ari, hann hefur starfað við að gera ástandsskoðanir á híbýlum og hefur því tekið að sér að skoða skýrslur annarra Grindvíkinga til að fara yfir vinnubrögðin fyrir þeirra hönd. 

Í samtali við mbl.is kveðst Hilmar þegar hafa fengið 17 skýrslur í hendurnar og séu þær allar með svipuðu móti og hans eigin. Til að mynda vanti oftar en ekki rökstuðning fyrir bótaupphæð, sérstaklega ef hún er undir eigináhættu sem er 400 þúsund krónur. 

„Ef þeir telja hana lægri en 400 þúsund þá yfirleitt vantar kostnaðargreiningu sem styður það,“ segir Hilmar. 

„Það er ekki eðlilegt að setja eitthvað fram í skýrslu með engum rökstuðningi.“

Af heimili Hilmars.
Af heimili Hilmars. Ljósmynd/Aðsend

Verkís, VSH, Efla og Mannvit annast skoðanirnar

Spurður hvort einhver viðbrögð hafi borist frá NTÍ eða verkfræðistofunum sem annast ástandskoðanirnar fyrir hönd NTÍ svarar Hilmar neitandi.

Verkfræðistofurnar sem annast skoðanirnar eru Verkís, VSH, Efla og Mannvit, og segir Hilmar að hann hefði því haldið að þær yrðu gerðar af meiri fagmennsku.

Hann hafi þó fengið endurmat á sínu húsi í gær en segir skoðunina hafa verið mjög svipaða og þá fyrri, þó með tilliti til athugana hans um halla á útvegg. Fátt hafi þó verið breytt í verklagi þeirra og kveðst Hilmar ekki endilega vongóður um að sú skýrsla verði betur unnin.

„Þeir geta ekki breytt þessum vinnubrögðum núna vegna þess að ef þeir hafa verið að gera einhverja vitleysu, þá eru þeir bara að sýna fram á það að þetta hafi verið gert vitlaust,“ segir Hilmar.

„Það er svo vont að það sé verið að senda út þessar skýrslur til fólks sem kann ekki að lesa úr þeim, það veit ekki hvort það vanti inn í þetta.“ 

Skiptir máli að vita raunástand

Hann segir mikilvægt að matsmenn gefi sér góðan tíma í hvert hús til að gera almennilega úttekt á þeim og geri skilmerkilega grein fyrir því í skýrslunum. 

„Um leið og NTÍ er búin að borga út tjónið þá færðu það ekki aftur, það er bara eitt skipti. Þess vegna skiptir svo miklu máli að skýrslurnar um tjónamatið séu rétt unnar, vel gerðar og skýrar.“

Hverju breytir það hvort skýrslurnar séu ítarlegar í tilfellum sem þessum þar sem orsök er jú eflaust augljós? 

„Segjum að húsið mitt sé tjónað og ég ætli ekki að selja, þá vil ég fá tjónamat á húsið. Þá vil ég vita hvað er að, það er það sem er verið að skoða. Ef ég ætla að nýta forgangsréttinn minn og kaupa húsið mitt til baka eftir 1-2 ár, þá vil ég líka vita raunástand á húsinu.

Svo finnst mér þetta líka almennt prinsipp. Það er verið að skoða húsin, það er verið að gefa okkur skoðunarskýrslu og þar á bara allt að vera uppi á borði.“

Heldurðu að verkfræðistofurnar hafi fengið tilmæli um að hafa hraðar hendur við skoðanirnar vegna fjölda heimila sem þurfi að skoða?

„Ja, hún er búin að gefa það út, forstjórinn, eftir viðtalið við mig í Bítinu, að verkfræðistofurnar hafi allan tímann í heiminum í rauninni til þess að fara og skoða. Ef þeim finnst ástæða til að koma aftur, þá bara fara þær aftur.“

Af heimili Hilmars.
Af heimili Hilmars. Ljósmynd/Aðsend

Vilji meðal þingmanna

Kveðst Hilmar aftur á móti hafa fengið góð viðbrögð frá þingmönnum á Alþingi við tölvupóstum um málið. Alls hafi átta þingmenn svarað og heitið því að skoða málið betur. Kveðst Hilmar því finna fyrir miklum vilja til að gera rétt gagnvart Grindvíkingum.

Til að mynda hafi Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata sagst ætla að senda fyrirspurn til innviðaráðherra sem fer fyrir málaflokknum og Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar hafi áframsent tölvupóst hans til efnahags- og viðskiptanefndar og beðið hana um að taka málið til skoðunar. 

Spurður hvort ekki sé mikið álag fyrir einn mann að skoða mál fyrir svo margra kveðst Hilmar vissulega hafa meira en nóg fyrir stafni því hann þurfi jú einnig að stunda dagvinnu sína. Hann geri það þó með glöðu geði enda kunni ekki allir að lesa úr skýrslunum. Grindvíkingar eigi það skilið að almennilegum vinnubrögðum sé beitt við þessar skoðanir.

„Það er nóg búið að leggja á okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert