„Þetta verður mikilfenglegur viðburður“

Hrafnhildur Inga Guðjónsdóttir sinnir ýmsu og kemur víða við.
Hrafnhildur Inga Guðjónsdóttir sinnir ýmsu og kemur víða við. mbl.is/Árni Sæberg

Galdrafár á Ströndum nefnist fornnorræn listahátíð sem Hrafnhildur Inga Guðjónsdóttir hefur skipulagt ásamt Önnu Björgu Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóra Galdrasýningar á Ströndum. Boðið verður upp á tónleika, fyrirlestra, vinnustofur, víkingaþorp og fleira á Hólmavík 19.-21. apríl.

„Þetta verður mikilfenglegur viðburður,“ segir Hrafnhildur. Hún hafi viljað rými fyrir listsköpun og hlýju og því ákveðið að halda þessa alþjóðlegu hátíð. „Við bjóðum upp á skemmtun og fræðslu um áhugaverð efni, sem viðkoma fornri menningu á Íslandi og víða í Evrópu.“

Mun umfangsmeiri en lagt var upp með

Sérfræðingar víða að Hrafnhildur er í listamannahópnum Northern Fire, þar sem félagsmenn sérhæfa sig í fornnorrænni þekkingu. Hún segir að Sean Parry, húðflúrari í Wales og stofnandi samtakanna, hafi mikinn áhuga á þessu sviði.

„Hann er með fingurna í öllu sem þessu viðkemur. Við í hópnum komum saman að minnsta kosti árlega til að deila visku okkar á milli og Galdrafár er liður í því, en hátíðin verður mun umfangsmeiri en ég lagði af stað með í upphafi.“

Undanfarinn rúman áratug hefur Hrafnhildur starfað sem húðflúrari og farið sem slíkur víða um heim (habbanerotattoo.com). „Ég hef starfað víða sem gestur á erlendum húðflúrstofum og flúrað á mörgum hátíðum, meðal annars á Indlandi.“

Hún á og rekur stofuna Örlög á Laugavegi ásamt Zivu Ivadóttur og Bylgju Thorlacius, en sérstök húðflúrráðstefna verður á hátíðinni, þar sem verðlaunaðir húðflúrarar láta til sín taka. „Ég nota ekki vél heldur pota blekinu með húðflúrnál beint í húðina og var fyrsti Íslendingurinn til að flúra faglega með þessari aðferð.“

Lengri útgáfu greinarinnar má finna í Morgunblaðinu 16. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert