Hæstiréttur Íslands hefur gert atvinnurekanda að sæta atvinnurekstrarbanni í þrjú ár eftir gjaldþrot níu félaga á hans vegum.
Tveir lífeyrissjóðir og Skatturinn hafa lýst yfir kröfu í þrotabú mannsins sem nemur 309.697.473 króna.
Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði manninn upprunalega í þriggja ára atvinnurekstrarbann. Maðurinn var að vonum ósáttur við þá niðurstöðu og skaut málinu til Hæstaréttar.
Vildi maðurinn að Hæstiréttur myndi úrskurða hvort heimilt væri að láta hann sæta atvinnurekstrarbanni í ljósi þess að ákvæði, sem heimila að leggja atvinnurekstrarbann á einstaklinga, tóku gildi eftir að félag mannsins var tekið til gjaldþrotaskipta.
Félag mannsins var tekið til skipta í nóvember árið 2022, en ákvæðið tók gildi í janúar árið 2023.
„Sú meginregla gildir að almennt skuli lög ekki vera afturvirk. Sú regla er þó ekki fortakslaus. Í þeim tilvikum þegar lög geyma nýmæli og reglur, þar sem engra slíkra naut við samkvæmt eldri löggjöf, skal hinum nýju lögum beitt um öll lögskipti og réttindi manna sem undir hin nýju ákvæði falla þótt upphaf þeirra megi rekja til gildistíma eldri laga. Þessi regla á sér stoð í því að löggjafinn hafi svigrúm til þess að skipa málum og koma á umbótum sem æskilegar eru taldar. Ekki megi reisa löggjafanum of þröngar skorður við því að breyta lögum eftir þörfum hverju sinni þótt það kunni að valda óvissu um stöðu þeirra sem gert hafa áætlanir og ráðstafanir á grundvelli eldri laga,“ segir í dómi Hæstaréttar.
Hæstiréttur komst einnig að þeirri niðurstöðu að þar sem að nýja ákvæðið fæli ekki í sér refsingu eða refsikennd viðurlög væri ekki unnt að leysa úr málsástæðu mannsins að um afturvirka refsingu væri að ræða sem væri í andstöðu við mannréttindasáttmála Evrópu.
Manninum var gert að sæta atvinnurekstarbanni til þriggja ára frá uppsögu dómsins. Kostnaður við meðferð málsins fyrir Hæstarétti nemur 500.000 krónum og verður greiddur úr ríkissjóði. Einnig verða 500.000 kr. laun málsvara hans greidd úr ríkissjóði.