Járnamottum að andvirði 1,2 milljóna króna var stolið í Grindavík. Jón Pálmar Ragnarsson, eigandi efnisins, er íbúi í Grindavík og tók eftir því að efnið var horfið á mánudagskvöld.
Hann átti erindi til Grindavíkur og ákvað í leiðinni að athuga stöðuna á byggingarlóð sinni á svæðinu. Þá tók hann eftir því að búnt af járnamottum var horfið. Hann var síðast á svæðinu 27. febrúar og voru járnmotturnar þá á sínum stað.
„Þetta eru mörg hundruð kíló og þú leikur þér ekkert að því að stela þessu,“ segir Jón Ragnar en RÚV greindi fyrst frá málinu.
Hann segir fljótlegustu leiðina til að stela mottunum vera að koma að svæðinu á kranabíl, húkka í motturnar og hífa þær allar upp í einu og keyra svo burt.
Jón Ragnar segir nánast ógerlegt fyrir tvo menn að taka eina og eina járnamottu í einu, enda yrðu það margar ferðir og motturnar mjög þungar. Búntið sé um 700 kíló til tonn í þyngd.
Við fyrstu athugun virðist engu öðru hafa verið stolið af svæðinu en eitthvað af byggingarefni í biðstöðu var á svæðinu.
Hann segir tap sitt vera mikið. „Við vorum búnir að finna annað hlutverk fyrir járnamotturnar annars staðar. Það stóð til að ná í þær og flytja þær í annað verkefni á höfuðborgarsvæðinu.“
Aðspurður um hvað taki nú við segir Jón Ragnar að fyrsta skrefið hafi verið að óska eftir upplýsingum á Facebook-síðu Grindvíkinga. Þá stendur til að tilkynna stuldinn til lögreglu en Jón Ragnar segist ekki bjartsýnn á að það muni skila einhverju.
Öryggisgæsla á svæðinu er ábótavant og ekki er mikið verið að spá í hver er á svæðinu í hvaða erindagjörðum, segir Jón Ragnar.
„Á þessum lokunarpóstum er ungt fólk í vinnu að skrá niður bílnúmer og svona. Það er ekkert mikið verið að spá í því hver er hvað á svæðinu og með hvað.“
Þá bætir hann við að ógurleg umferð sé af verktökum inn og út af svæðinu í tengslum við varnargarða. Honum þykir því ekkert skrítið að einhver nái að lauma sér með.
Spurður hvort þörf sé á meira eftirliti á svæðinu segir Jón Ragnar að svo sé og það eftirlit þurfi að vera markvissara. Íbúar í Grindavík hafa kallað eftir því að þeir sem megi fara inn á svæðið fái QR-kóða og segir Jón Ragnar það ekki vera vitlaust.
„Það eru eiginlega allir sammála um það á bæði íbúasíðum og í samtölum að það sé of auðvelt að komast inn á svæðið.“