Þúsundir Íslendinga eru á faraldsfæti um páskana og þess má sjá stað á bílastæðinu við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Þar var bíll við bíl í gær og fullbókað í langtímastæðin samkvæmt upplýsingum frá Isavia.
Heildarfjöldi stæða sem hægt er að bóka við flugstöðina er rúmlega tvö þúsund en auk þess var bætt við 300 stæðum til að reyna að anna eftirspurn. Er þar um að ræða nýmalbikað svæði sem tekið var í notkun í byrjun vikunnar.
Samkvæmt upplýsingum frá Isavia er enn hægt að bóka stæði fyrir ferðir sem hefjast frá og með laugardeginum en ganga þarf frá pöntun á vef fyrirtækisins.
Auk þess bjóða ýmis fyrirtæki upp á umsjón með bílum fólks meðan á ferðalaginu stendur.