Rétt fyrir klukkan tvö í nótt var lögregla kölluð til vegna ungmenna sem voru að gera dyraat í Árbæ. Ungmennin voru einnig grunuð um skemmdarverk. Lögregla ræddi við foreldra þeirra og verður tilkynning send til barnaverndar vegna málsins.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Þá var ökumaður grunaður um akstur undir áhrifum áfengis, akstur án réttinda og fyrir ýmis vopnalagabrot. Hann var látinn laus eftir hefðbundið ferli.
Lögregla var kölluð út vegna einstaklings sem var gripinn við að stela dósum úr dósagámi. Sá gat ekki gert grein fyrir sér og var fluttur á lögreglustöð til viðræðna. Að lokum leystist málið og ekki reyndist nauðsynlegt að rannsaka það frekar.
Ölvaður einstaklingur var handtekinn í miðbænum rétt fyrir klukkan fjögur. Hann var til vandræða og hafði neitað að yfirgefa svæðið og ekki reyndist mögulegt að tala um fyrir manninum. Hann var því handtekinn að lokum.
Þá barst tilkynning um að múrsteini hafi verið kastað í glugga hótels. Málið er í rannsókn.