800 tonn af kolmunnalýsi voru um borð í flutningaskipinu Key Bora sem tók niðri í Fáskrúðsfirði í gær. Flytja átti lýsið frá Neskaupstað í verksmiðju Lýsis hf. í Þorlákshöfn.
Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis hf., staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
Bilun varð í stýrisbúnaði skipsins sem náði þó að losa sig með eigin vélarafli skömmu síðar og var í kjölfarið fylgt í höfn.
Lýsi hafði farið í sjóinn í Fáskrúðsfirði fyrir óhappið en skipið tók niðri skömmu eftir lýsisútskipun hjá Loðnuvinnslunni.
Kafarar könnuðu ástand skipsins í dag og virðast engar alvarlegar skemmdir vera á því. Skipið er nú á siglingu suðaustur af Íslandi með farm sinn.
Beðið er eftir kolmunnalýsinu í vinnslu hjá Lýsi hf. að sögn Katrínar. Hún býst ekki við því að neinar skemmdir hafi orðið á því.
„Kolmunnavertíðinni er svo gott sem lokið og þetta er svo gott sem það kolmunnalýsi sem við fáum. Við þurfum á þessu að halda í vinnslunni og í samningum sem við erum búin að gera,“ segir Katrín.