Mögulega minni virkni í minnsta gígnum

Drónamynd af gígunum sem var tekin í dag.
Drónamynd af gígunum sem var tekin í dag. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Lítið sést af kviku í minnsta gígnum af þeim þremur sem hafa verið virkir við Sundhnúkagígaröðina undanfarna daga.

„Mér sýnist þetta vera bara á mjög svipuðu róli,“ segir Salóme Jór­unn Bern­h­arðsdótt­ir, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur hjá Veður­stofu Íslands, í samtali við mbl.is um virknina úr gígunum þremur við Sundhnúkagígaröðina.

Dróna var flogið yfir gosstöðvarnar í dag og segir Salóme að lítið hafi sést af kviku úr minnsta gígnum. Það þurfi þó ekki endilega að þýða neitt vegna dagsbirtu og reyks.

Myndina hér að ofan tók Hörður Kristleifsson ljósmyndari.

Hvernig hefur gasmengun verið í dag?

„Það hefur ekki mikil gasmengun mælst á þessum mælum sem við erum með,“ segir hún en bætir við að svolítið svifryk (brenni­steinst­víoxíði (SO2)) hafi mælst í Grindavík. 

Svifrykið vegna gróðureldanna

Salóme segir að svifryksmengunina megi rekja til gróðureldanna sem slökkviliðið í Grindavík glímir nú við.

„Þannig að þó að þetta sé norðaustanátt þá ná gróðureldarnir töluvert sunnar en gígarnir. Vindáttin hefur verið að beina frekar svifrykinu – sem sagt menguninni vegna gróðureldanna – yfir Grindavík, frekar heldur en gasmengunin,“ segir hún og bætir þó við að brenni­steinst­víoxíð hafi mælst við Nesveg klukkan hálf þrjú í dag.

Salóme segir mengunina við Nesveg ekki hafa orðið það mikla að gefa þurfti út viðvörun og að hún hafi fljótt dottið niður aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka