„Við höfum náð að halda þessu í skefjum,“ segir Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, í samtali við mbl.is um gróðureldana við gosstöðvarnar.
„Þetta gengur svona hægt en markvisst í rétta átt,“ segir hann en aðgengi að eldunum er ekki gott.
Ljósmyndirnar tók Hörður Kristleifsson fyrr í dag. Hann birtir jafnan ljósmyndir sínar á Instagram-reikningi sem hann heldur úti.
Tankbíll frá björgunarsveitinni í Vík í Mýrdal er nýkominn á svæðið og var að hefja störf er blaðamaður ræddi við Einar um klukkan hálf sex.
Ekki hefur verið talin þörf á að óska eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar enn sem komið er.
Einar segir að slökkviliðið verði að störfum þar til myrkur skellur á og svo verði staðan metin í fyrramálið. Hann segir að þrátt fyrir að í dag sé föstudagurinn langi hafi vel tekist að manna vaktirnar hjá slökkviliðinu.
Að sögn Einars eru kjöraðstæður fyrir gróðurelda en jarðvegurinn er þurr og engin rigning er í veðurspánni næstu daga.
„Þetta eru bestu aðstæður,“ segir hann.
Einar segir að gróðureldarnir séu enn sem komið er ekkert í líkindum við eldana sem loguðu við eldgosið við Litla-Hrút síðasta sumar.
„Okkar vinna miðast við það að reyna halda því niðri.“