Sindri M. Stephensen dósent hefur verið metinn hæfastur í embætti héraðsdómara, að því er segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Dómsmálaráðuneytið auglýsti hinn 16. febrúar í Lögbirtingablaði embætti héraðsdómara með fyrsta starfsvettvang við Héraðsdóm Reykjavíkur.
Tveir sóttu um embættið, Sindri og Sólveig Ingadóttir, aðstoðarmaður héraðsdómara.
„Dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara hefur skilað umsögn sinni til dómsmálaráðherra og er það mat nefndarinnar að Sindri M. Stephensen sé hæfastur umsækjenda til að hljóta setningu í embættið,“ segir í tilkynningu.
Dómnefndina skipuðu: Ása Ólafsdóttir, formaður, Helga Melkorka Óttarsdóttir, Kristín Benediktsdóttir, Reimar Pétursson og Þorgeir Örlygsson.