Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti þann 17. janúar 2024 að hafin yrði vinna við breytingu á aðalskipulagi Hafnarfjarðar 20213 vegna borteiga fyrirtækisins Carbfix.
Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands gagnrýna staðsetningu borteiganna í umsögnum sínum um málið.
í desember 2022 undirrituðu fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar, Carbfix og Rio Tinto á Íslandi
viljayfirlýsingu um uppbyggingu móttöku- og förgunarstöðvar fyrir koldíoxíð (CO2) í Straumsvík undir heitinu Coda Terminal.
Förgunin felst í niðurdælingu og bindingu koldíoxíðs eða CO2 í bergi. Ráðgert er að fyrsti áfangi stöðvarinnar verði tekinn í gagnið 2027 og að hún nái fullum afköstum árið 2031.
Náttúrufræðistofnun gagnrýnir áætlaðar staðsetningar fyrir borteigi. Í umsögn stofnunarinnar segir að staðsetningar borteiga séu bæði á röskuðum svæðum, m.a. innan iðnaðarsvæðis, og eru syðstu borteigarnir staðsettir á óröskuðu hrauni, bæði sögulegu, Kapelluhrauni, og forsögulegu, Selhrauni.
Hvort tveggja fellur undir ákvæði 61. gr. Náttúruverndarlaga. Í þeim kemur meðal annars fram að forðast beri að raska ósnortnum hraunmyndunum nema af brýnni nauðsyn.
Að mati Náttúrufræðistofnunar ætti að gera úttekt á verndargildi þessara óröskuðu hraunmyndana áður en endanleg útfærsla á staðsetningu og hönnun borteiga og annarra innviða sé ákveðin í deiliskipulagi.
Þá segir í umsögninni að það þurfi einnig að kanna hvort friðaðar plöntur, plöntur á válista eða sjaldgæfar plöntutegundir finnist á áætluðum framkvæmdasvæðum með vettvangskönnun.
Umhverfisstofnun bendir einnig á það í umsögn sinni að borteigarnir eigi að ná yfir óhreyft hraun, sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd.
Umhverfisstofnun leggur áherslu á að fjallað sé nánar um hraunið í tillögunni og það komi fram hvaða leiðir verði farnar til þess að forðast rask þess.
Þá bendir Umhverfisstofnun á að ef tillagan geri ráð fyrir röskun á hrauni þurfi að rökstyðja þá ákvörðun og gera grein fyrir öðrum kostum og ástæðum þess að þeir urðu ekki fyrir valinu.
Því það þarf, í samræmi við náttúruverndarlög, að koma fram hvaða brýnu almannahagsmunir réttlæta röskun á hrauninu.
Þá er einnig bent á að ekki sé fjallað um lög um stjórn vatnamála og vatnaáætlun í matslýsingunni.
Umhverfisstofnun bendir á að, samkvæmt lögum um stjórn vatnamála, eiga opinberar áætlanir á vegum stjórnvalda, svo sem vegna skipulagsmála að vera í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram kemur í vatnaáætlun
Í upplýsingum um málið segir að skipulagslýsing sé verkáætlun um mótun tillögu og er tilgangurinn að tryggja aðkomu almennings og hagsmunaaðilum að skipulagsferlinu á fyrstu stigum þess, auka gagnsæi, tryggja betra upplýsingaflæði, skila betri og markvissari skipulagsvinnu og gefa sveitarstjórn og þeim sem koma að ferlinu betri yfirsýn allt frá fyrstu skrefum.
Aðrir sem hafa skilað inn umsögn eru Landsnet, Garðabær, Kópavogsbær og Skipulagsstofnun. Hægt er að lesa umsagnirnar og gögn málsins á vef Skipulagsgáttar