Enn mallar í eldgosinu við Sundhnúkagígaröðina og hefur virknin haldist nokkuð stöðug síðan á mánudag.
Minnsti gígurinn hefur þó aðeins þurft að berjast fyrir lífi sínu að sögn Salóme Jórunnar Bernharðsdóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands.
Aðspurð segir Salóme ekki mælast mikla gasmengun á svæðinu. Það sé aðeins að mælast við Nesveg, Grindavíkur megin, og jafnframt við Bláa lónið, mengunin er þó ekki á hættulegum stigum að sögn Salóme.
Salóme segir slökkvistarf við hrauntungurnar hafa gengið ágætlega í gær. Slökkviliðinu hafi tekist að mestu leyti það sem það ætlaði sér og í dag muni það sinna fyrirbyggjandi slökkvistarfi á svæðinu.
Spurð hvort vindátt á svæðinu sé hagstæðari í dag heldur en í gær með tilliti til slökkvistarfs segir Salóme þar enn vera norðaustanátt.
Þrátt fyrir það segir hún að minni reykmengun sé á svæðinu vegna brunans og því megi búast við að loftgæði verði þar betri í dag en í gær.