Hringvegurinn er víða lokaður á norðan og norðaustanverðu landinu vegna ófærðar, auk þess er ófært um Steingrímsfjarðarheiði og Þröskulda.
Það var um eitt leytið í dag sem Öxnadalsheiðinni var lokað að sögn Magnúsar Inga Jónssonar, þjónustufulltrúa í umferðaþjónustu hjá Vegagerðinn. Unnið er að því að opna veginn um heiðina á ný en óvíst um hvað verður.
Vegna lokunar um Öxnadalsheiðina hefur verið nokkur umferð fyrir Tröllaskaga en Magnús Ingi segir ekki mælt með því að fara þá leið, að þessu sinni, í stað þess að bíða eftir að komast um Öxnadalsheiðina.
„Þar eru bílar búnir að vera að lenda í vandræðum og umferð gengur hægt,“ segir Magnús Ingi, en snjóþekja er á veginum og skafrenningur.
Uppfært 16:46:
Búið er að opna Öxnadalsheiðina en á umferdin.is segir að þæfingur sé á heiðinni og aðstæður mjög leiðinlegar, mikil snjókoma, skafrenningur og lítið skyggni. „Aðstæður geta breyst hratt til hins verra. Við hverjum fólk því til að skoða síðuna reglulega.“
Magnús Magnússon, formaður björgunarsveitarinnar Stráka á Siglufirði, segir björgunarsveitina á leið úr útkalli frá Siglufjarðarvegi þar sem húsbílar sátu fastir. Þá segir hann gríðarlega hálku á svæðinu og því hafi framdrifsbílar verið að lenda í miklum vandræðum.
Hann segir veðrið á svæðinu þó vera að ganga niður í bili en bætir við að útlit sé fyrir að það muni aftur versna í kvöld og á morgun. „Við erum bara klárir,“ segir Magnús.
Hringvegurinn er þó ekki einungis lokaður um Öxnadalsheiði því jafnframt er lokað um Möðrudalsöræfi. Magnús Ingi segir töluvert af bílum hafa fest sig á Möðrudalsöræfum í nótt og ekki stefnt að því að moka veginn fyrr en á mánudagsmorgun.
„Þar er lokað og næstu upplýsinga að vænta á mánudagsmorgun,“ segir Magnús Ingi og bætir við að útlit sé fyrir leiðinda veðri á svæðinu næsta sólarhringinn.
Sé horft fram hjá hringveginum og vestur á landið má sjá að jafnframt er ófært um Steingrímsfjarðarheiði og Þröskulda. Magnús Ingi segir marga hafa haft samband við Vegagerðina í von um að komast þar í gegn, en ekki sé útlit fyrir að vegirnir verði opnaðir í dag.
Það skal engan undra að fjöldi manns sækist eftir því að komast um Steingrímsfjarðarheiði og Þröskulda í dag því mikið er um að vera á Ísafirði yfir páskana. Rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, hófst í gær og stemmingin verður ekki síðri í dag en þá koma fram Spacestation, Birnir, Hipsumhaps, Helgi Björnsson, Of Monsters and Men, HAM og Inspector Spacetime.